Miðvikudagur 13. júní 2007

164. tbl. 11. árg.

K

Tígurinn þarf meira af svona mönnum en minna af boðum og bönnum.

onungur frumskógarins er í útrýmingarhættu. Nú áætla menn að aðeins séu 2.000 til 3.000 villt tígrisdýr eftir í heiminum. Þetta er niðurstaðan eftir að „alþjóðasamfélagið“ svonefnda og gagnrýnislausa hefur beitt boðum og bönnum til að vernda dýrin í yfir þrjá áratugi. Ráðstefna um verslun með dýr í útrýmingarhættu (CITES) hóf að takmarka viðskipti með ýmis dýr og plöntur árið 1975. „Project Tiger“, sem hófst árið 1972, reyndi að koma á algjöru banni við veiðum og verslun á tígrisdýrum. Því til viðbótar voru stofnuð níu verndarsvæði tígrisdýra og þeim hefur nú fjölgað í 27. Hér hefur áður verið getið skrifa og hugmynda Indverjans Barun Mitra um tígurinn. Mitra hefur bent á að þessi boð og bönn dugi ekki. Hann hefur haldið því fram að tígurinn sé ekki aðeins efstur í fæðukeðjunni heldur gæti hann einnig trónað á toppi hagkerfisins vegna þess hve eftirsóttur hann er. Mitra og stofnunin sem hann starfar fyrir vilja því afnema verslunarbannið svo hægt verði að tengja saman hagnýtingu og verndun tígursins. Tígurinn þarfnist eignarréttar og markaðslausna í stað boða og banna til að endurheimta konungdæmi sitt í frumskóginum. Mitra skrifar nýja grein um tígurinn í júníhefti Far Eastern Economic Review þar sem hann segir meðal annars:

„Í þá þrjá áratugi sem menn hafa skipulega reynt að vernda tígurinn hefur verndun og verslun verið att saman sem andstæðum. Meginstoð verndunarinnar hefur verið algert bann við því að veiða dýr þótt það stefni ekki ákveðnum stofnum í hættu. Verslun og neysla afurða hefur einnig verið bönnuð. Eftirlit og gæsla hefur þannig orðið hornsteinn verndunarinnar. Markmiðið er að setja tígurinn í skóginum á svo háan stall að markaðsöflin nái ekki til hans! Við erum því með eftirsótta vöru sem býr ekki við aga markaðarins og um leið býr margt fátækasta fólk veraldar í návígi við þessa eftirsóttu vöru án þess að geta nýtt sér hana og þar með án alls hvata til að vernda dýrin og stýra nýtingunni með sjálfbærum hætti. Það ætti að blasa við öllum að þessi stefna gagnast engum nema veiðiþjófum og smyglurum. Tígurinn verður áfram í mikilli hættu vegna ágangs veiðiþjófa.“

Mitra vill að verslun verði leyfð með tígurinn enda sé hann endurnýjanleg auðlind. Kínverjar hafi nú þegar æktað um 5.000 dýr og engin ástæða til annars en að afurðir þeirra fari á markað. Það myndi létta álaginu af villtu dýrunum. Þetta hafi til að mynda gefist vel með krókódíla víða um heiminn. Þeir séu ræktaðir vegna skinnsins í stórum stíl og því ástæðulaust að leita til veiðiþjófa um villt dýr.

Í þessu samhengi má svo geta þess að íslenski frændi tígursins, íslenski heimiliskötturinn, bjó ekki við nein sérstök lög, reglur, skatta, boð eða bönn í þúsund ár á Íslandi. Og gekk bara alveg ágætlega án þess takk fyrir. Það var ekki fyrr en nýlega sem hinir óþolandi afskiptasömu sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið tóku upp á því að setja alls kyns reglur og gjöld á köttinn og húsbændur hans.