Fimmtudagur 14. júní 2007

165. tbl. 11. árg.

Skemmtileg tímarit eru afbragðslesning og margt sem þau skola á fjörur lesenda sem ekki sést annars staðar. Lítum í tvö sem kannski koma ekki fyrir þúsundir íslenskra augna reglulega.

Eitt albesta og skemmtilegasta tímarit Bretlands er jafnframt það elsta sem þar er gefið út, The Spectator. Af mörgu vænu efni hvers heftis er reglulegur dálkur Charles Moores ekki sístur, en Moore var lengi ritstjóri systurblaðsins The Daily Telegraph. Nýlega hugsaði hann til þeirra krafna sem nútíminn gerir til stjórnmálamanna, að þeir séu alltaf hressir og brosandi.

Poor Gordon Brown. The grim seriousness of his ambition for No. 10 is proved by the fact that he is smiling so much. The procedure is clearly painful for him, and he has not yet learned to coordinate the action with his words. But the public demand that our leaders grin is now absolute. Why should it be so? The future Queen Mother, when first engaged to the future King George VI, was rebuked by Queen Mary for smiling in public. The theory was that to smile was to pretend to acquaintance. I suppose that is still the theory, but now such pretence is admired. But why should leaders smile in public? Did Jesus? We are told only that he wept. Did Mr. Gladstone, or General De Gaulle? Smiling in politics only took off with the totalitarian age.

Af hverju brosa stjórnmálamenn alltaf þegar þeir stilla sér upp á myndum? Það er kannski svona skemmtilegt að sitja fyrir.

Annað tímarit, þar sem oft má rekast á efni sem ekki sést annars staðar, þó það sé að öðru leyti á flestan hátt ólíkt The Spectator, er íslenska vikuritið Vísbending sem að mestu leyti helgar sig viðskiptum og efnahagsmálum. Fleira ratar þó í blaðið, eins og til dæmis þessi upprifjun ritstjóra þess og að sjálfsögðu vakti enga athygli annarra íslenskra fjölmiðla.

Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi 24. 5. 07.: „Ólafur Ragnar sagði að fundinum loknum að á ríkisráðsfundi í dag yrði tekið mið af núgildandi lögum um stjórnarráðið. Ólafur Ragnar sagði að Geir hefði gert sér grein fyrir viðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. „Þær eru í samræmi við það sem ég lýsti í síðustu viku um að viðræðum lyki á viku til tíu dögum. Eins og ég lýsti hef ég ætíð verið þeirrar skoðunar að æskilegt væri að flokkarnir gætu á skjótvirkan og árangursríkan hátt komið sér saman um nýja ríkisstjórn sem styddist við meirihluta á Alþingi án þess að forsetinn þyrfti að blandast inn í það mál með ítarlegum viðræðum við alla flokka eða að atburðarásin yrði mjög flókin,“ sagði forsetinn.“

Árið 1995 kom eftirfarandi frétt í Mbl. 25. 4.: „Á fundi með forseta Íslands í gær bar Ólafur Ragnar formlega upp þá tillögu þingflokks Alþýðubandalagsins, að Halldór Ásgrímsson fengi umboð til að mynda ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna. Eftir fundinn sagði Ólafur Ragnar að þetta væri í samræmi við það sem flokksmenn hefðu sagt að undanförnu og í samræmi við það sem þeir teldu vera eðlilegt. „Við sáum ekki ástæðu til að hvika frá þeirri afstöðu þótt á síðasta sólarhring hafi komist upp um þetta hollustubandalag sem Halldór Ásgrímsson hefur sóst í með Davíð Oddssyni,“ sagði Ólafur Ragnar.

Vitanlega þykir engum íslenskum fjölmiðli frásagnarvert að Ólafur Ragnar Grímsson hafi sem flokksformaður sjálfur lagt að forseta Íslands að fela öðrum flokksformanni að mynda allt aðra ríkisstjórn en flokkur þess manns hafði þá í huga, en segi nú að hann hafi ætíð verið þeirrar skoðunar að flokkarnir eigi sjálfir að mynda ríkisstjórn án þess að forsetinn blandist inn í það með viðræðum við alla flokka eða að atburðarásin verði mjög flókin.