Föstudagur 15. júní 2007

166. tbl. 11. árg.

M

Þótt Spooner hafi barist gegn ríkiseinokun á póstburði með stofnun póstfélags árið 1844 þarf hann að þola að ríkispósturinn beri út íslenska þýðingu á Vices Are Not Crimes 163 árum síðar.

enn þurfa stundum að gera fleira en gott þykir. Þegar Bóksala Andríkis sendir viðskiptavinum sínum eintak af Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner á hún ekki annan kost en að nýta sér einokunarþjónustu ríkisfyrirtækis til að bera póstinn út. Það er hins vegar ekki víst að Spooner hefði glaðst sérstaklega yfir þessum útburði á ritverki sínu þótt hann hefði vafalítið fagnað því mjög að vera orðinn læsilegur á máli sem aðeins nokkrir eyjarskeggjar norður í Atlantshafi skilja.

Á 19. öld hafði bandaríska ríkið uppi tilburði til einokunar á póstþjónustu. Stjórnarskráin mælti fyrir um að ríkið sinnti slíkri þjónustu. Spooner gaf að sjálfsögðu út rit gegn einokuninni, The Unconstitutionality of the Laws of Congress Prohibiting Private Mails. Þegar það dugði ekki til að hnekkja einokuninni stofnaði hann póstfyrirtækið American Mail Letter Company árið 1844 sem atti kappi við ríkispóstinn. Spooner túlkaði stjórnarskrána svo að hún mælti aðeins fyrir um skyldu ríkisins til að tryggja póstburð en ekki gegn því að aðrir bæru bréf á milli manna. Fyrsta póstleiði hins nýja félags var á milli New York og Boston en fleiri áfangastaðir bættust fljótt við enda var burðargjaldið mun lægra en ríkispósturinn heimti. Reksturinn sjálfur gekk ljómandi vel en þar sem hvert bréf sem fyrirtæki hans bar á milli manna var brot á einokun ríkisins blasti við það þessu merkilega framtaki yrði drekkt í stefnum og málflutningskostnaði. Spooner tók því þá ákvörðun að hætta rekstrinum en hann hafði þegar leitt til mikillar lækkunar á póstgjöldum ríkispóstsins.

En samkeppni heldur ekki aðeins niðri verði heldur er miklu líklegra að í keppni verði til nýjungar og bætt þjónusta. Síðast enn ekki síst er afnám einokunar af þessu tagi atvinnufrelsismál fyrir þá sem kunna að vilja hasla sér völl í greininni. Og eins og dæmin sanna þá geta það verið hinir ólíklegustu menn.