Þriðjudagur 12. júní 2007

163. tbl. 11. árg.

E

Til hvers var Framsóknarflokknum skipt út fyrir Samfylkingu í ríkisstjórn ef ekkert á hvort eð er að breytast á landbúnaðarmálum?

itt fyrirheita nýrrar ríkisstjórnar er að auka frelsi í landbúnaðarmálum. „Unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Hægrimenn, ekki síst þeir á mölinni, hafa sýnt landbúnaðarkerfinu mikið langlundargeð í þeirri von að breytingar í frjálsræðisátt verði engu að síður með tíð og tíma. Ráð Framsóknarflokksins á landbúnaðarmálum í ríkisstjórn undanfarin 12 ár voru talin gjald fyrir meiri hagsmuni; skattalækkanir og einkavæðingu sem aðrir flokkar en Framsóknarflokkurinn voru ekki tilbúnir til að styðja Sjálfstæðisflokkinn til að framkvæma.

En markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um aukið frelsi í landbúnaðarmálum varð ekki raunhæfara verkefni þegar þingmanni úr norðvesturkjördæmi var falið að gegna embætti landbúnaðarráðherra. Það er eiginlega engin leið að ætlast til þess af þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna að taka til í þessum málaflokki. Það virðist engu breyta þótt mennirnir séu almennt andvígir ríkisafskiptum, skömmtun og hömlum. Afdráttarlausar yfirlýsingar Einars K. Guðfinnssonar landbúnaðarráðherra á Stöð 2 27. maí um að íslenskur landbúnaður þoli ekki aukna erlenda samkeppni eru dæmi um þetta og væntanlega ávísun á lítt breytt ástand.

Nafni og flokksbróðir ráðherrans úr norðvesturkjördæminu skrifaði líka grein í Blaðið skömmu fyrir kosningar þar sem hann tók til varna fyrir landbúnaðarkerfið og gaf skattgreiðendum og neytendum langt nef. Þetta voru einu skilaboð Sjálfstæðisflokksins til kjósenda um landbúnaðarmál í kosningunum. Þessi skilaboð hafa varla mælst vel fyrir hjá þeim frjálslyndu kjósendum sem vilja treysta Sjálfstæðisflokknum til að afnema höft í viðskiptum og draga úr ríkisstyrkjum til atvinnurekstrar.