Mánudagur 24. júlí 2006

205. tbl. 10. árg.

Báðar fréttasjónvarpsstöðvarnar hafa sent menn austur á land til að sýna þann stórviðburð að hundrað manns ef ekki fleiri eru nú í tjöldum að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Er að verða með miklum ólíkindum hversu lengi menn geta látið eins og hin fámennu mótmæli gegn þessari eða álíka virkjunum séu fréttnæm. Það vita allir að virkjanir eru umdeildar. Talsverður hópur manna mun undartekningarlaust verða á móti hverri einustu virkjun sem lögð verður til og annar hópur fólks telur sig fylgja einhverri hóflegri nýtingarstefnu og nú sé einfaldlega nóg virkjað að sinni. Sumum er svo einfaldlega sárt um tiltekin svæði og ekkert athugavert við að þeir vilji að þau fái að halda sér óbreytt um ókomin ár.

Það er engin ástæða til að áfellast fólk fyrir að mótmæla virkjunum, svo lengi sem það reynir ekki að taka lögin í eigin hendur. Það sem er undarlegt er hinn sífelldi fréttaflutningur af hverju skrefi þessa fólks. Mótmæli við Kárahnjúkavirkjun eru einfaldlega frá almennu sjónarmiði ekki fréttnæm lengur, nema ef vera skyldi fyrir það hversu fámenn þau virðast vera núna. Miðað við mikið kynningarstarf, einkum í Morgunblaðinu og þá sérstaklega Lesbók þess, hefði mátt ætla að ógrynni fólks legði leið sína austur á land að sjá nýjasta blettinn sem ekki má undir nokkrum kringumstæðum „fórna“. En einhverra hluta vegna hafa fáir haldið austur til mótmæla, þó af þeirri staðreynd verði auðvitað lítið ráðið um réttmæti mótmælanna.

Auðvitað er málstaður mótmælenda skiljanlegur að mörgu leyti. Það er verið að leggja land undir vatn og ekki horfur á að það heimtist framar. Framkvæmdir hafa breytt ásýnd svæðisins, og þó það sé minna en margur myndi halda af látunum öllum, þá blasir við að þær breytingar verða aldrei teknar til baka af neinu viti. Það er auðvitað skiljanlegt að fólk vilji að farið sé varlega við allar slíkar ákvarðanir, því þó hálendið sé stórt og mikill hluti landsins enn eins og náttúruöflin hafa skilið við hann frá degi til dags, þá gengur auðvitað á þetta land með stöðugri útþenslu manna. Og hún birtist ekki aðeins í virkjunum og lónum heldur alls kyns misstórum framkvæmdum. Og vel að merkja, af hverju máttu menn ekki heyra á það minnst að Héðinsfjarðargöng yrðu umhverfismetin? Af hverju hefur enginn talað um að þar eigi náttúran að njóta vafans og fagur dalur að vera óspillur af framkvæmdum? Ekki getur það verið vegna þess að menn ætli sér að aka um göngin en það séu bara einhverjir aðrir sem munu vinna í álveri eða selja nýjum íbúum Austfjarða þjónustu.