Hið opinbera er alltaf að reisa sér hús. Og ef ekki er verið að reisa ný hús, þá þarf að endurbæta þau sem fyrir eru. Ríki og sveitarfélög eru linnulítið að færa út kvíarnar og aukin starfsemi þarf ný hús og „nýir tímar“ kalla á víst á fullkomnari húsakynni – fagorðin eru „stórbætt aðstaða fyrir starfsfólk og bætt aðgengi almennings“ – og allt kostar þetta peninga. Hið opinbera eyðir því gríðarlegu fé til húsnæðismála sinna og þykir ýmsum nóg um. Að minnsta kosti þykir Vefþjóðviljanum að opinberar byggingar mættu að ósekju vera nokkru ódýrari. Auðvitað gerði Vefþjóðviljinn sér ekki miklar vonir um að allir yrðu sér sammála um þetta en engu að síður þá kom honum á óvart að heyra beina kröfu um það að opinberar byggingar yrðu beinlínis dýrari en nú.
En hún kom fram í gær. Í leiðara Morgunblaðsins í gær var þess nefnilega beinlínis krafist að opinberar byggingar í höfuðborginni yrðu í framtíðinni skattgreiðendum 1% dýrari en nú. Menningarmálanefnd Reykjavíkur hefur nefnilega lagt til við borgarráð að stofnaður verði „Listskreytingasjóður Reykjavíkurborgar“ og skuli á hverju ári veita til hans upphæð sem nemi 1% af því fé sem varið sé til nýbygginga á vegum borgarinnar. Og leiðarahöfundur Morgunblaðsins ræður sér ekki fyrir fögnuði og segir að því megi ekki „gleyma að listir í nánasta umhverfi almennings [séu] einnig vel til þess fallnar að auka skilning og þekkingu fólks á þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki skapandi öflum samtímans.“
Nei, því má náttúrlega ekki gleyma. En má Vefþjóðviljinn þá láta þess getið, að því má ekki heldur gleyma, að öll útgjöld hins opinbera eru kostuð með skattgreiðslum hins almenna borgara. Það fé sem rynni í „Listskreytingasjóð Reykjavíkurborgar“ hefði áður verið tekið með valdi af almennum Reykvíkingum sem þannig hefðu minna fé undir höndum til að kaupa það sem þeir raunverulega vilja fá. Eflaust þykir ýmsum sem listaverk lífgi upp á þær skrifstofubyggingar sem þeir eiga erindi inn í, en það er ekki nægileg röksemd til þess að neyða alla menn til að borga þær skreytingar. Ef hf. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, vill til dæmis verja ákveðnum hluta af byggingarkostnaði sínum til listaverkakaupa þá er það í góðu lagi. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ættu hins vegar að reyna að fara sparlega með annarra manna fé.
Annars er óþarfi að vera sífellt að ergja sig á því sem íslenskir fjölmiðlar bjóða áheyrendum sínum og lesendum upp á. Ísland er fámennt land og vart hægt að ætlast til þess að fjöldi fjölmiðla geti boðið upp á látlaust skemmtiefni eða skynsamlegar ritsmíðar dag eftir dag. Vart er sanngjarnt að gera sömu kröfur til íslenskra fjölmiðla og erlendra enda er munurinn á þeim oft sláandi. Á þriðjudaginn birti The Daily Telegraph lesendabréf frá einum áskrifanda sínum, Margréti Thatcher að nafni, þar sem hún sagði skoðanir sínar á innanflokksmálum Íhaldsflokksins. Sama dag birti Morgunblaðið milljónasta lesendabréfið frá Alberti Jensen.