Frá Kingston í Jamaíka berast nú þær fregnir að opinber nefnd hafi lagt til að maríúana verði lögleyft, en þó aðeins í litlum skömmtum til einkanota. Samkvæmt þessum sömu fregnum er talið líklegt að yfirvöld fari að niðurstöðu nefndarinnar og leyfi maríúana, en þó með því skilyrði að áfram verði verslun með það óheimil. Á þessari karabísku eyju mun maríúana þegar vera afar útbreitt og er reyndar hluti af trúarlífi sumra eyjarskeggja. Þessar vinsældir efnisins hafa verið fyrir hendi þrátt fyrir harða baráttu yfirvalda gegn ræktun þess og dreifingu.
Lögleyfing efnisins, þó takmörkuð væri, hefði því verulegar breytingar í för með sér og má ætla að þær væru flestar jákvæðar, en eins og lesa mátti í nýlegu helgarsproki Vefþjóðviljans hefur bann við fíkniefnum og baráttan gegn þeim aðeins gert illt verra. Fíkniefnin og neytendur þeirra hafa ekki horfið – þvert á móti er framboð fíkniefnanna nægt – en glæpum hefur fjölgað.
Í gær var minnst á stuðning Morgunblaðsins við aukin útgjöld hins opinbera. Sumum þykir væntanlega tíkarskapur af Vefþjóðviljanum að eltast við eitt ræfilslegt prósent í kostnaði. Þetta er nú svo lítið að varla er hægt að minnast á það, segja nú sumir. Þeim þykir engu skipta hvort bygging kostar 100 milljónir króna eða 101 milljón króna. Eða 1.000 milljónir króna eða 1.010 milljónir króna. Þetta eru þeir menn sem segjast vera hlynntir aðhaldi og sparnaði hjá hinu opinbera, en eru það þó aldrei þegar á reynir. Fyrir þessa menn eru engin útgjöld nægilega stór til að það taki því að skera þau niður. „Hvað ætli muni um nokkrar milljónir,“ segja þeir sannfærandi um leið og þeir verja gæluverkefni sín. Hver einstök sparnaðarhugmynd er alltaf of lítilfjörleg til að það taki því að hefja niðurskurðarhnífinn á loft. Talsmönnum slíkra sjónarmiða geta skattgreiðendur þakkað um hver mánaðamót og í hvert sinn sem verslað er, því á meðan allar „litlu“ útgjaldahugmyndirnar hljóta lofsamleg ummæli þeirra sem opna um þær munninn er engin von til að það takist að draga úr útgjöldum hins opinbera.