Miðvikudagur 22. ágúst 2001

234. tbl. 5. árg.

Stuðningsmenn Evrópusambandsins gera ekki mikið úr afskiptum þess af innanríkismálum aðildarríkja. Sumir þeirra eru jafnvel svo einlægir í trúnni að þeir eru þess fullvissir að sambandið setji engar reglur á borð við þær sem segja til um hversu bognar gúrkur eigi að vera eða hvort hurðir veitingastaða skuli opnast inn eða út. Þetta er allt misskilningur vondra andstæðinga aðildar að þessu sambandi ef marka má heitustu stuðningsmennina. Misskilningur manna sem ekki eru nægilega nútímalegir til að skilja og skynja nauðsynlega og óhjákvæmilega þróun heimsins. Að vísu eru til menn sem framleiddu of bognar gúrkur fyrir Evrópumarkaðinn, en það er óþarfi að viðurkenna að svo hafi verið ef maður vill inn í þetta samband. Líklega hefur því verið haldið að Svíum að Evrópusambandið myndi láta þá alveg í friði og þess vegna gengu þeir með stjörnur í augum inn í Brussel-klúbbinn.

Sænskar gaupur Evrópusambandsins
Sænskar gaupur Evrópusambandsins

Veruleikinn varð ekki alveg sá sem vongóðir Svíar héldu. Meira að segja tilraunir Svía til að halda gaupustofninum í skefjum hafa reynst meira en Evrópusambandið gat þolað og nú eiga þeir á hættu að verða dregnir fyrir dómstóla Evrópusambandsins fyrir morð á þessum köttum. Svíum kann að finnast þetta undarleg afskipti í ljósi þess að þeir telja að fjöldi gaupna sé mikill og vaxandi. En stuðningsmenn Evrópusambandsins munu án vafa finna mikilvæg rök fyrir því að svona verði þetta að vera. Og að án slíkra afskipta hefði fullveldi Svíþjóðar verið í bráðri hættu. Ef alls engin slík rök finnast er alltaf eftir sá möguleiki að neita því blákalt að þetta hafi nokkurn tímann staðið til.

Þó stuðningsmenn Evrópusambandsins séu í fullri afneitun þegar kemur að hinum fjölmörgu ókostum aðildar að sambandinu, virðist fólk víða um Evrópu átta sig á að ekki er endilega ástæða til að breiða sambandið út umfram það sem orðið er. Þannig sýna skoðanakannanir í Noregi nú að mikill meirihluti Norðmanna hafnar aðild að Evrópusambandinu og það meira að segja þrátt fyrir að stóru flokkarnir til hægri og vinstri beiti sér fyrir aðild. Þá sýna nýjar skoðanakannanir í Tékklandi að stuðningur við aðild hefur minnkað úr 48% í 40% á einu ári, sem er athyglisvert í ljósi þess að Tékkar yrðu nettó-þiggjendur í sjóðasukki Evrópusambandsins, ólíkt Norðmönnum og Íslendingum.