Stéttarfélagaiðnaðurinn belgist út. Félögin leita sífellt nýrra leiða til að taka ráðin af félagsmönnum sínum. |
Við hugsum fyrir þig“, hefði geta verið yfirskrift kynningarfundar verkalýðsfélaga sem haldinn var vegna útgáfu skýrslu sem félögin létu Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinna fyrir sig. Á fundinum var kynnt hugmynd að auknum ríkisafskiptum, og ekki í fyrsta sinn sem haldinn er fundur um það óþarfa málefni. Eins og venja er með hugmyndir um aukin ríkisafskipti var hugmyndin kynnt á allt öðrum forsendum. Að þessu sinni hét hugmyndin „menntareikningur“ og snýst um að launþegar geti lagt fyrir hluta launa sinna á sérstakan reikning til að greiða fyrir nám síðar á lífsleiðinni. Nú kann einhver að hugsa með sér að slíkur sparnaður hafi verið heimill hingað til og kynningarfundurinn hljóti því að hafa verið til kynningar á þeim bankareikningum sem í boði eru, en svo var ekki. Hugmyndin snýst nefnilega um það að hugsa fyrir fólk og reyna að hafa áhrif á hvernig það hagar lífi sínu. Ríkið á að hvetja til menntasparnaðarins með sérstökum afslætti af sköttum. Skattana mundu þá væntanlega greiða þeir sem ekki legðu inn á slíkan reikning, það er að segja helst þeir launþegar sem ekki hyggja á frekara nám, hvort sem það kallast símenntun, endurmenntun eða eitthvað annað. Þeir sem hyggja á nám og þar með væntanlega launahækkun yrðu svo þeir sem nytu skattaafsláttarins og mun verkalýðsfélögunum þykja sérstök sanngirni í því.
Það er vinsælt að koma með hugmyndir þar sem ríkið á að hvetja til einhvers með beinum niðurgreiðslum eða óbeinum eins og í þessu tilviki. Og vegna þess að slíkar hugmyndir eru vinsælar hafa margar þeirra því miður náð fram að ganga með þeim afleiðingum að ríkið hefur þanist út og reglur hafa verið settir um miklu fleira en ástæða væri til. Allar eru hugmyndirnar líklega settar fram í göfugum og góðum tilgangi, en niðurstaðan verður ekki eftir því. Í raun virðist ótrúlegt hve margar hugmyndir um aukin ríkisafskipti fæðast og eru kynntar opinberlega, en þegar betur er að gáð er þetta skiljanlegt. Fjöldi manna vinnur beint og óbeint við að framleiða slíkar hugmyndir, bæði hjá hinu opinbera og einnig hjá hinu hálf-opinbera, svo sem verklýðsfélögunum. Þar starfar fjöldi manna sem sýnilega hefur fátt fyrir stafni en þiggur laun af fé sem tekið er af launþegum í formi verkalýðsfélagsskatts, sem stundum er víst kallaður félagsgjald.