Miðvikudagur 7. janúar 2004

7. tbl. 8. árg.
Svikinn af samferðamönnum mínum, særður af þeim flokki sem ég hélt minn ágæta vin, játaði ég í hreinskilni fyrir þeim sem spurðu, að þarna nennti ég ekki frekar að dvelja.
 – Kristján Hreinsson, formaður borgarmálaráðs Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, í Morgunblaðinu 28. desember 2003.

Ásíðasta ári bar það til að R-listinn meinaði einum varaborgarfulltrúa sínum, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, að taka til máls í borgarstjórn, þar sem hún hefði þá lýst persónulegri skoðun á því léttvæga álitamáli hvort rífa megi kvikmyndahúsið Austurbæjarbíó. Utan frá séð virtist málið með hreinum ólíkindum, þó áhugi fréttamanna á því hafi auðvitað ekki endurspeglað það svo miklu næmi. Jújú, það var sagt frá því í fréttum, enda annað varla hægt – það er nú ekki á hverjum degi sem varaborgarfulltrúi segir af sér – en ímyndi fólk sér nú hvernig fréttamenn brygðust við ef í ljós kæmi að einhverjir aðrir en R-listinn beinlínis bönnuðu fulltrúum sínum að taka til máls á öðrum nótum en eftir tærustu flokkslínu. Og ekki um mikilvægustu álitamál heldur um það hvort það megi rífa bíó.

Á dögunum skrifaði Kristján Hreinsson langt og þungort „Opið bréf til Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs“ í Morgunblaðið og lýsti því meðal annars hvernig félagar hans í þeim flokki hefðu komið í veg fyrir að rædd yrði eða greidd atkvæði um tillögu sem hann hefði lagt fram á landsfundi vinstrigrænna í nóvember. Ályktunartillaga Kristjáns var um ítrekun á andstöðu vinstrigrænna við Kárahnjúkavirkjun og að því er virðist í góðu samræmi við málflutning flokksins í þeim málum á liðnum árum, en engu að síður rak hann sig á vegg þegar hann ætlaði að fá tillöguna rædda. „Mér til mikillar undrunar vildu menn helst af öllu láta þessa ályktun hverfa“ segir Kristján í bréfi sínu og bætir við að meðal annars hafi verið gefin sú skýring á því að annað væri „afturhvarf til fortíðar“. Nú hefur forysta vinstri grænna sem sagt ákveðið að ekki eigi lengur að tala um Kárahnjúkavirkjun og þá er þeim umræðum þar með lokið innan flokksins.

Og Kristján segir fleira og víkur meðal annars að máli Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur og er ekki hrifinn af frammistöðu sinna manna þá: „Já, þegar ég hugsa um þetta fólk, rifjast það upp fyrir mér að það gerðist hér um daginn að einn af félögum okkar þurfti á stuðningi borgarfulltrúa flokksins að halda, þá var það samdóma álit borgarfulltrúanna að snúa baki við þeim sem hjálpina þurfti. Þetta var gert í skjóli þess að ekki mætti styggja hinn fróma meirihluta – vini okkar í R-listanum.“ Nei, það má víst ekki styggja neinn í R-listanum, þar má víst enginn gagnrýna annan og enginn hafa aðra skoðun en þeir sem ráða. Innan R-listans virðast allir þurfa að kyngja því sem hinir gera, jafnvel þó það séu hlutir eins og Kristján Hreinsson lýsir af heldur lítilli gleði: „Enda verður vart annað sagt en sannfæringin sé alvarlega föst í huga mér þegar ég geri ég mér grein fyrir því að flokkur minn styður borgarstjórn, þar sem Framsóknarflokkurinn situr einsog púki á fjóshaug eða ormur á gulli – með tögl og hagldir í peningastjórn Orkuveitunnar. Íburður og spilling eru þar í hverju horni og ekki hægt að líta framhjá þeim viðbjóði sem þar þrífst og hefur lengi þrifist.“

Nei, Kristján Hreinsson er ekki sáttur við störf meirihlutans í Reykjavík eða borgarfulltrúa vinstrigrænna: „Við stjórn borgarinnar eru mönnum svo mislagðar hendur að ég gæti lengi haldið áfram að benda á atriði sem eru fullkomlega á skjön við það velsæmi sem mér var sagt að Vg ætlaði að temja sér“, skrifar hann í hinu opna bréfi sínu. Og nú er rétt að vekja athygli á því að Kristján Hreinsson þessi er ekki aðeins reiður borgari úti í bæ heldur skrifaði hann sem hvorki meira né minna en formaður borgarmálaráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Og hefur grein hans ratað í nokkurn fréttatíma? Formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna skrifar í Morgunblaðið að ótalmargar gerðir flokksmanna sinna og þess borgarstjórnarmeirihluta sem þeir styðja séu „fullkomlega á skjön“ við velsæmi – og engum fréttamanni dettur í hug að spyrja hann nánar út í það. Hvernig halda menn að þeir létu ef annar eins trúnaðarmaður einhvers annars flokks hefði skrifað grein eins og Kristján Hreinsson gerði í síðustu viku?

En kannski voru allir fjölmiðlamenn uppteknir við að leita að tilvísunum og neðanmálsgreinum í nýjustu bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.