Nú bíða borgarbúar þess spenntir að fasteignagjöld lækki svo borgin hafi sömu tekjur og áður af fasteignasköttum. |
Eins og frægt varð hækkaði Orku- og risarækjuveita Reykjavíkur skyndilega verð á heitu vatni til viðskiptavina sinna á síðasta ári. Kom hækkunin eins og þruma úr heiðskíru lofti því meiri hluti borgarstjórnar hafði um árabil haldið því fram að veitan gæti staðið undir miklum arðgreiðslum í botnlausan borgarsjóð án þess að það myndi bitna á orkukaupendum. Skýringin sem forsvarsmenn veitunnar gáfu var að góða veðrið sem lék við landsmenn hefði leikið efnahag veitunnar grátt. Vegna hærri hita hefðu borgarbúar keypt minna heitt vatn. Hér var því um óviðráðanleg öfl að ræða.
Í fyrrdag kunngjörði Fasteignamat ríkisins að fasteignaverð hefði hækkað á síðasta ári. Þetta var að vísu flestum kunnugt en ekki veitir af að hafa sérstaka ríkisstofnun sem vottar að það sem allir vita sé einmitt eins og allir vita. Hefur Fasteignamat ríkisins því gefið út mat á því að íbúðarhúsnæði hafi hækkað eins og það hefur hækkað á síðasta ári. Þannig hækkaði „fasteignamatið“ fyrir húsnæði í Reykjavík um 10%.
Fasteignamatið er notað af sveitarfélögum sem gjaldstofn fasteignagjalda. Þegar fasteignamatið hækkar hækka fasteignagjöldin. Nú er sem gefur að skilja oft erfitt að átta sig á því hvers vegna fasteignaverð breytist. Að minnsta kosti hefur enginn haldið því fram að hann geti stýrt fasteignaverði þótt auðvitað megi hafa áhrif á það með því til að mynda að úthluta ekki lóðum til nýbygginga í stærsta sveitarfélagi landsins eða auka stuðning ríkisins við íbúðakaupendur. Það má því segja að verðþróun á fasteignum sé ekki síður óútreiknanleg en veðrið. Því hlýtur Reykjavíkurborg ekki síður að taka tillit til þess að tekjur hennar aukast með hærra fasteignaverði og hún gerði þegar tekjur af sölu á heitu vatni minnkuðu. Til að tryggja sömu tekjur af fasteignagjöldum, eins og af heita vatninu á síðasta ári, liggur í augum uppi að borgin mun lækka fasteignagjöld sín sem nemur þeirri hækkun sem orðið hefur á fasteignamati. Aðeins þannig heldur hún tryggð við þá stefnu sem mörkuð var á síðasta ári að hvernig sem veltur skuli borgin fá sömu tekjur og áður.