Spegill Ríkisútvarpsins var ekki sendur út frá „Borgarfræðasetri“ á þriðjudagskvöld enda kosningar að baki. Spegillinn leitaði þó ekki langt yfir skammt því Rósa Erlingsdóttir gjaldkeri „Femínistafélags Íslands“ var mætt með skýringar á stöðu kvenna á þingi.
Að sjálfsögðu byrjaði femínistinn á því að fullyrða að í kosningunum um helgina hefði í fyrsta sinn verið möguleiki á því að kona yrði forsætisráðherra hér á landi. Sem er merkileg kenning að því leyti að Margrét Frímannsdóttir var ekki aðeins talsmaður Samfylkingarinnar í kosningum 1999 heldur einnig forsætisráðherraefni. Forystukonur Kvennalistans hefðu svo einnig hæglega geta lent í stjórnarráðinu á meðan Kvennalistinn bauð fram til þings, ekki síst eftir kosningarnar 1987. Þessar konur höfðu það allar sér til ágætis í starf forsætisráðherra að þær náðu kjöri á þing sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði ekki í kosningunum á laugardaginn. Jafnvel mætti halda því fram að Ingibjörg Sólrún sjálf hafi verið nær því að verða forsætisráðherra þegar hún var kjörin á þing fyrir Kvennalistann 1991 en nú! Eftir kosningarnar 1991 gleypti hún sællar minningar heilt álver í beinni útsendingu í sjónvarpi til að gera Kvennalistann að vænlegri kosti í stjórn. Kvennalistinn hafði lýst sig eindregið andvígan stóriðju fram til þeirrar stundar er Ingibjörg Sólrún sá glitta í ráðherrastólinn.
Hin kenningin um stöðu kvenna sem nefnd var í Speglinum er að hún breytist ekki „af sjálfu sér“. Og staðan sé afar slæm í dag og eitthvað þurfi að gera til að hún breytist. Þetta er ekki áþekk baráttuaðferð og sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar hafa notað til að afla málstað sínum fylgis og til að réttlæta alls kyns opinber afskipti. Fátt vekur meiri athygli en að mála skrattann á vegginn. Femínistar hamra á því að staða kvenna sé slæm. Þær eru ekki í „stjórnunarstöðum“ til jafn við karla, segja femínistar, þótt ekkert bendi til að þegar hæfar konur sækja um slíkar stöður eigi þær undir högg að sækja. Þær hafa bara sóst eftir stjórnunarstöðum í minna mæli en karlar síðustu áratugina enda almennt aflað sér minni menntunar en karlar fram á síðustu ár. Þetta er að breytast eins og allir vita sem hafa helstu skilningarvit opin. Og svo er það „launamunur kynjanna“. Ekki er óalgengt að heyra hrópað að konur séu vart hálfdrættingar á við karlmenn í launum. Eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum leyft sér að benda á er munur á launum kynjanna vart marktækur miðað við þá óvissu sem óhjákvæmilega fylgir mælingum á launum miðað við menntun, starfsreynslu, starfsaldur, ábyrgð, stöðu, mannaforráð, vinnutíma og fleira og fleira sem spilar inn í. Það eru til dæmis vandfundin „sömu störf“ nema í stórum framleiðslufyrirtækjum en þar starfar oft aðeins annað kynið. Og hvaða starfsmenn skila í raun „sömu vinnu“ þegar upp er staðið?
Þegar ekkert liggur fyrir um að konur hafi lægri laun en karlar er auðvitað spurning hverjum það er í hag að „femínistar“ og aðrir spekúlantar séu sífellt að auglýsa útsölu á starfskörftum kvenna.