Fimmtudagur 15. maí 2003

135. tbl. 7. árg.

Það er margt furðulegt sem skýtur upp kollinum í kosningabaráttu og ekki allt þannig að álit fólks á því ætti að fara eftir stjórnmálaskoðunum. Dæmi um það er krafa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þess efnis að henni verði reiknuð öll utankjörfundaratkvæði þar sem kjósandinn hefur ritað bókstafinn V. Rétt er að taka fram, fyrir þá sem aldrei hafa kosið utankjörfundar, að slík atkvæðagreiðsla fer ekki fram eins og hin hefðbundna, það er að segja með því að rita kross fyrir framan viðeigandi listabókstaf, heldur ritar kjósandinn á auðan kjörseðil listabókstaf þess flokks sem hann vill kjósa. Þannig var gert ráð fyrir því að kjósendur Frjálslynda flokksins skrifuðu F, Sjálfstæðisflokksins D, Samfylkingarinnar S og svo framvegis. Og listabókstafur vinstrigrænna er U en ekki V. Vinstrigrænir segja hins vegar að tiltekin samtök íslenskra námsmanna erlendis hafi sagt félagsmönnum sínum hið gagnstæða, það er að segja að vinstrigrænir noti einmitt V. Þegar atkvæði voru talin um helgina kröfðust vinstrigrænir þess að V-atkvæðin yrðu reiknuð þeim og var fallist á þá kröfu í sumum kjördæmum en ekki öðrum.

Það að fallist sé á þessa kröfu er enn eitt dæmið um lausungina sem stundum grípur þá sem stjórna eiga málum við kosningar. Er það varhugaverð þróun en skammt er að minnast dóms héraðsdóms Norðurlands vestra í fyrra, þar sem dæmt var að tiltekið framboð, sem skilaði framboði sínu að liðnum framboðsfresti, skyldi samt fá að bjóða fram. Og nú leyfðu sumar yfirkjörstjórnir að eitt framboð skyldi fá að nota tvo listabókstafi þrátt fyrir að allir aðrir yrðu að láta sér einn nægja. Hvað ætli gerist næst, þegar einhver umburðarlyndur kjörstjórnarmaður rekst á tækifæri til að túlka reglur „rúmt“? Það gengur einfaldlega ekki að einn framboðslisti fái fleiri listabókstafi en aðrir og breytir engu um það þó eitthvert félag úti í bæ hafi gefið félagsmönnum sínum rangar leiðbeiningar. Og eins og slík mismunun sé ekki næg ástæða ein og sér til að hafna beiðni vinstrigrænna, hvað með til dæmis þann kjósanda sem vissi vel hvaða listabókstafir voru í notkun en ákvað allt að einu að skrifa V? Hér gæti verið um að ræða stuðningsmann Kvennalistans, sem ætíð notaði listabókstafinn V, sem vildi með þessu senda þau skilaboð að hann væri ósáttur við að Kvennalistinn byði ekki fram. Á bara eftirá að ákveða að þessi kjósandi kjósi vinstrigræna? Nú má alveg segja að slíkir kjósendur séu sennilega ekki margir, en það er bara annað mál.

Og ef að vinstrigrænir syrgja V atkvæðin sem urðu ógild, þá geta þeir huggað sig við það að þeir eru þó betur settir en sjálfstæðismenn. Það er nefnilega vitað um ýmsa kjósendur, sem höfðu ætlað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sem í því skyni skrifuðu S á kjörseðilinn og fóru ánægðir út. Þau atkvæði urðu ekki ógild heldur runnu einfaldlega til Samfylkingarinnar. Sem sjálfstæðismenn telja sjálfsagt verra en ógildingu.

Annað ópólitískt sem hefur fengið sitt rúm í fréttum er sú staðreynd að annar nýkjörinna þingmanna Frjálslynda flokksins í norðvesturkjördæmi ber titilinn hegranessgoði í trúfélagi því sem hann heyrir til. Hafa fréttamenn haft þetta til marks um það að nú sé goði loks sestur á þing eftir 800 ára hlé eða svo. Nú ætti það að blasa við að goða-titill þessa manns í trúfélaginu er eingöngu trúarlegs eðlis en kemur stjórnskipan ríkisins ekki á minnsta hátt við. Goðar þjóðveldisaldar fóru með goðorð, en í því fólust fyrst og fremst mannaforráð. Fréttamenn sem vilja ræða hin miklu tímamót sem nú hafi orðið við það að goði sé að nýju sestur á alþingi og sitji þar sjálfsagt í lögréttu, gætu kynnt sér ýmis rit sem mættu verða þeim til hliðsjónar við næstu fróðleiksmolagerð. Mætti þar til dæmis vísa þeim á fróðlegt rit Jóns Viðars Sigurðssonar, Frá goðorðum til ríkja. Þróun goðavalds á 12. og 13. öld og ekki síður á doktorsritgerð Olavs Olsens, Hørg, hov og kirke. Historiske og arkæologiske vikingetidsstudier, sem Jón Viðar vísar til. Að því búnu ættu fréttamenn að vera albúnir í slaginn.