Ídag er merkur dagur fyrir alla áhugamenn um svín og það sem þeim tengist. Afmælisdagur nánar til tekið. Í dag eru nefnilega þrjú ár frá upphafi talsverðs listviðburðar, Stórsvínahátíðarinnar, The big pig gig, í Cincinnati í Bandaríkjunum. Frá 14. maí ársins 2000 og í rúma fjóra mánuði þar á eftir mátti njóta listar sem á einn eða annan hátt var tileinkuð svíninu, þessu dýri sem mörgum er kært en aðrir hafa litlar mætur á. Fólk hefur nefnilega svo misjafnan smekk. Það er einmitt einn margra kosta frjálslyndisins að það leggur ekki steina í götu þess fólks sem vill vinna að eigin áhugamálum í friði við aðra. Hvort sem áhugamál manna lúta að aríusöng, kjöltudansi, stangarstökki eða því að skreyta veggi með galtarmyndum þá vill frjálslynt fólk að hver og einn sé frjáls að því að verja eigin tíma og peningum eftir sínum eigin smekk svo lengi sem ekki er gengið á betri rétt annarra. Og í frjálslyndinu er ekki aðeins fólgin önnur hlið peningsins, það er að segja sú að hver eigi að vera frjáls að sinna eigin áhugamálum. Nei, frjálslynt fólk vill ekki að mönnum sé gert að halda uppi áhugamálum annarra; það vill ekki að opinberu fé sé varið til að styrkja tómstundastarf sumra. Þó svínlistahátiðin í Cincinnati sé að mörgu leyti undarleg, þá er hún dæmi um meinlausa starfsemi sem óeðlilegt væri að hið opinbera kæmi nálægt, en sjálfsagt að áhugamenn standi fyrir á eigin kostnað ef þeir vilja.
Þegar hið opinbera, hvort sem það er ríki eða sveitarfélag, ákveður að styrkja einhverja starfsemi þá skerðir það möguleika annarrar starfsemi. Allt það fé sem ríkið eyðir tekur það frá skattborgurunum sem þar með hafa minna milli handanna til að gera það sem þeir vilja gera. Hvort sem reist er stúka við knattspyrnuvöll, klúbbur styrktur til golfvallargerðar eða þá byggð milljarða tónlistarhöll, þá verður allt þetta til að draga úr möguleikum fólks til að lifa lífi sínu eins og það sjálft kýs. Og þess vegna leggst frjálslynt fólk gegn þátttöku hins opinbera í öllum slíkum verkefnum, og það eins þó hið sama frjálslynda fólk kynni að fagna því innilega ef einkaaðilar ynnu eitthvað af þessum verkum. Þó sérhagsmunahóparnir rýti sem mest þeir mega, þá verður frjálslynt fólk að standa fast á móti útgjaldatillögum þeirra svo borgararnir verði sem mest sjálfráða um eigið líf.
En þó baráttan sé mikilvæg verður þó hver að gæta þess að ganga fram af háttvísi og gæta orða sinna. Sumir nota jafnan hin breiðu spjótin og vega að andstæðingum sínum með stórum orðum og öllum ráðum. Hafa ýmsir orðið að súpa seyðið af hvatvísi sinni og mega þeir verða öðrum víti til varnaðar. Hver vill til dæmis lenda í sporum Hallfreðar vandræðaskálds, sem varð að leggja fram veglegan hring til bóta til óvinar síns, Gríss Sæmingssonar, eftir að hafa ort um hann Gríssvísur? Auðvitað vill það enginn og þó víða um heim megi finna dæmi þess að óvandaðir einstaklingar nái metorðum og tign þá er vonandi mun algengara að þeim vegni betur sem starfa af heilindum og réttsýni.
En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi. |