Landssamband eldri borgara hefur lýst óánægju sinni með það sem sambandið telur óraunhæfan tillöguflutning stjórnmálaflokkanna um breytingar á skattalögum, en sambandið álítur tillögurnar ekki líklegar til jöfnunar í þjóðfélaginu, heldur hið gagnstæða. Þessi sjónarmið sem Landssamband eldri borgara setur fram eru bæði athyglisverð og aðfinnsluverð fyrir margra hluta sakir. Tillögur stjórnmálaflokkanna í skattamálum eru afar ólíkar, en ef marka má málflutning þeirra sem valist hafa til forystu í Landssambandi eldri borgara og helsta aðildarfélags þess, þá eru allar líkur til þess að átt sé við tillögur stjórnarflokkanna tveggja, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það verður þó að teljast afar sérkennilegt að félagsskapur sem þessi skuli ekki láta sér nægja að beita sér fyrir kosningar með því að birta villandi og ranga útreikninga á skattbyrði, heldur komi hann einnig fram eftir kosningar og reyni að hindra að skattar verði lækkaðir. Ef félagsskapurinn hefur áhyggjur af of mikilli skattbyrði borgaranna – sem út af fyrir sig er full ástæða til að hafa áhyggjur af – þá hlýtur að vera rökrétt að styðja tillögur um skattalækkanir en ekki að reyna að bregða fæti fyrir að þær nái fram að ganga. Og ef félagsskapurinn hefur svo miklar áhyggjur af mikilli skattbyrði að hann er reiðubúinn til að ráða til sín mann sem kallar sig hagfræðing og að leggja í ærinn kostnað við að birta villandi og ranga útreikninga á skattbyrði, þá ætti hann ólmur að vilja lækkun skatta. En, nei, nú er þessi félagsskapur á móti því að skattar verði lækkaðir.
Er betra að húseignir eldri borgara brenni áfram upp í eignarskattinum en að hann verði felldur niður? |
Hverjar skyldu þá tillögurnar vera sem félagsskapurinn – eða að minnsta kosti forystumenn hans – óttast mest? Þær tillögur sem gera má ráð fyrir að stjórnarflokkarnir séu að ræða sín á milli þessa dagana hljóta að vera þær sem þeir lögðu fram fyrir kosningar; umtalsverð lækkun tekjuskattshlutfallsins og þar með um leið umtalsverð hækkun frítekjumarksins, helmingslækkun virðisaukaskatts á matvæli og fleiri vörur og þjónustu, og niðurfelling eignarskattsins. Allt eru þetta tillögur um skattalækkanir sem koma eldri borgurum til góða, ekki síst sú síðast nefnda, en eldri borgarar lenda allra manna verst í þeim sköttum og gjöldum sem tengd eru við hreinar eignir fólks.
Þegar félagsskapur eldri borgara viðhefur slíkan málflutning hljóta menn að spyrja sig hvað valdi ósköpunum. Svarið má að öllum líkindum lesa út úr þeim orðum að þær tillögur um skattbreytingar sem um ræðir séu „ekki líklegar til jöfnunar í þjóðfélaginu“. Þegar lagt er að stað með rangar forsendur er ekki von á góðu. Félagsskapurinn – eða að minnsta kosti forystumenn hans – álíta bersýnilega að það eigi að vera sérstakt markmið með öllum breytingum á skattkerfinu að „auka jöfnuð í þjóðfélaginu“. Skattkerfið á miðað við þetta ekki aðeins að afla ríkinu tekna, heldur að jafna sem mest má verða fjárhagslega stöðu borgaranna. Þessar hugmyndir eru svo sem ekki nýjar af nálinni og hafa verið reyndar víða og eru til að mynda ástæða þess að skattkerfið hér á landi er mjög tekjujafnandi í þeim skilningi að þeir sem hafa hærri tekjur greiða hærra skatthlutfall en þeir sem hafa lægri tekjur. Að ganga sífellt lengra í þessa átt er hins vegar ekki ákjósanlegt, enda dregur slíkt skattkerfi úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og þar með rýrir það kjör allra þegar horft er fram á veginn. Það hefur stundum verið haft á orði að vinstri menn telji sig sérfræðinga í að skipta hinni svo kölluðu þjóðarköku, en gleymi því að einhver þarf að baka hana. Landssamtök eldri borgara virðast einmitt hafa fallið í þessa gryfju.
Hitt er svo annað mál að það er rangt hjá Landssambandi eldri borgara að þær skattatillögur sem stjórnarflokkarnir lögðu fram auki frekar á ójöfnuð í þjóðfélaginu. Lækkun virðisaukaskatts á matvæli nýtist þeim best sem verja stærstum hluta ráðstöfunartekna sinna í mat, en það eru oft barnmargar og tekjulágar fjölskyldur. Þrátt fyrir gagnrýni félagsskapar eldri borgara má jafnvel gera ráð fyrir að eldri borgarar verji hluta ráðstöfunartekna sinna í mat og þeir ættu því að fagna lækkun matarverðs. Og þeir ættu allra manna helst að fagna því ef tekst að fella niður eignarskattinn, því hann leggst á þá af mestum þunga. Sennilega tekst forystumönnum félaga eldri borgara ekki að koma í veg fyrir fyrrgreindar skattalækkanir á næstu misserum og árum. Ef það tekst verður það þó að teljast einhver sérkennilegasta hagsmunagæsla sem elstu menn rekur minni til.