Helgarsprokið 18. maí 2003

138. tbl. 7. árg.

Ásíðustu misserum hafa nokkrar breytingar orðið á íslenskum dagblaðamarkaði. Mest ber enn á Fréttablaðinu sem um nokkurt skeið hefur verið borið í hvert hús á höfuðborgarsvæðinu en ekki er síður áberandi að nú kemur Morgunblaðið einnig út á mánudögum, og þó sú útgáfa sé jafnan í þynnra lagi þá er vísubotn Kjarvals samt fallinn úr gildi. Ein er svo sú breyting sem einnig hefur orðið á síðustu misserum, þó hún hafi ekki vakið eins mikla athygli og hinar tvær. Síðdegisblaðið DV hefur að vissu leyti sótt í sig veðrið og birtir nú iðulega fréttir og fréttaskýringar sem komast nær kjarna máls en morgunblöðin tvö bjóða upp á. Sennilega fer þessi jákvæða þróun DV fram hjá ýmsum sem ekki lesa það reglulega, því yfirbragð blaðsins hefur á sama tíma fremur breyst í hina áttina. Þó DV flytji nú mikilvægar fréttir og vel unnar fréttaskýringar, þá er forsíðan jafnan lögð undir eitthvert smámál sem engan varðar um, en kynnt með leturstærð sem aðrir fjölmiðlar geyma sér þar til heimsstyrjöld brýst út eða R-listinn efnir kosningaloforð.

Í helgarblaði DV, sem út kom í gær, skrifar Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður, grein sem hann nefnir „Kosningarnar og fjölmiðlar“ og fjallar þar aðeins um frammistöðu fjölmiðlamanna á liðnum vikum. Þó Ólafur Teitur dragi ekki sérstakar ályktanir um vinnubrögð hvers og eins fjölmiðils þá bendir hann á „nokkur dæmi sem benda til þess að það hafi ekki verið efst í huga þeirra að veita stjórnarandstöðunni sama aðhald og stjórnarflokkunum.“ Dæmi Ólafs Teits eru skýr og athyglisverð og eiga það flest sammerkt að fjölmiðlar létu stjórnarandstöðuna komast upp með að fara með allskyns staðleysur án þess að benda á það sem rétt var. Tökum eitt af dæmum Ólafs Teits:

Það er umhugsunarefni hvers vegna fjölmiðlar kynntu sáttatillögur Samfylkingarinnar með þeim orðum að flokkurinn vildi hækka skattleysismörk um 10 þúsund krónur á mánuði. Þetta er orðalag sem flokkurinn notaði sjálfur en þetta segir kjósendum nákvæmlega ekki neitt og er reyndar beinlínis villandi framsetning því margir halda sjálfsagt að þetta feli i sér 10 þúsund króna kjarabót. Fjölmiðli sem vill veita fólki góðar upplýsingar ber skylda til aö sjá í gegnum þetta og útskýra fyrir fólki hvað þetta þýðir, sem var auðvitað að persónuafsláttur yrði hækkaður um 4 þúsund krónur á mánuöi. Það er talan sem skiptir máli, hitt er fullkomið aukaatriði. Það er umhugsunarefni hvers vegna fjölmiðlar könnuðu ekki hvort það stæðist sem forystumenn Samfylkingarinnar héldu fram, að þessi tillaga flokksins kæmi sér betur fyrir fólk með meðaltekjur en skattatillögur ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er mjög einfalt reikningsdæmi og DV komst að því að þessi fullyrðing stóðst engan veginn. En engum fannst það fréttnæmt. Talsmaður Samfylkingarinnar dró frétt DV í efa og vísaði í útreikninga ríkisskattstjóra. Þegar útreikningar bárust frá ríkisskattstjóra kom í ljós að DV hafði rétt fyrir sér. Og enn fannst engum það fréttnæmt – að vísu fékk talsmaður Samfylkingarinnar pláss í Morgunblaðinu fyrir einhliða yfirlýsingu um málið sem sett var í fréttabúning.

Dæmin sem Ólafur Teitur eru fjölmörg og verða ekki rakin hér. Hann fjallar um stórkostlegar reikningsskekkjur Frjálslynda flokksins sem vanmat skattatilltögur sínar um að minnsta kosti 10 þúsund milljónir króna, hann nefnir þá staðreynd að oddviti Frjálslynda flokksins í fjölmennasta kjördæmi landsins lýsti því yfir fyrir nokkrum misserum að menn ættu ekkert að vera að væla yfir kvótakerfinu enda væri þar pláss fyrir duglega menn og þannig mætti áfram telja. DV sagði frá þessum málum eins og öðrum, en aðrir fjölmiðlar, Morgunblaðið, ljósvakamiðlanir og Fréttablaðið þögðu eins og steinar. Eflaust kemur frammistaða Morgunblaðsins ýmsum á óvart, því enn trúa því margir að það blað reki erindi Sjálfstæðisflokksins á einhvern hátt, eða veiti stjórnarandstöðuflokkunum eitthvert aðhald. En staðreyndin er sú að þetta er einfaldlega misskilningur. Morgunblaðið forðast eins og það telur sér fært að segja fréttir eins og Ólafur Teitur segir frá í grein sinni. Og ef blaðið segir frá missögnum og ranghermi stjórnarandstöðunnar þá er farið eins varlega og unnt er, og orðalag yfirleitt svo flókið að einungis þeir sem þekkja málefnið út og inn átta sig á því um hvað fréttin raunverulega er.

En við þessu er ekkert að segja. Það á enginn heimtingu á því að nokkurt blað, Morgunblaðið eða annað, segi aðrar fréttir en því sjálfu sýnist. Þeir sem ekki telja sig fá nægilega glögga mynd af kjarna málsins í einu blaði bregðast þá einfaldlega við með því að kaupa áskrift að öðru blaði sem segir að minnsta kosti stundum eitthvað sem fólk varðar um. Dæmi eins og þau sem Ólafur Teitur Guðnason rekur í nýjasta helgarblaði DV minna á að það er mikill munur á íslenskum fjölmiðlum, og ekki alltaf í þá átt sem flestir myndu kannski telja.

Það er umhugsunarefni hvers vegna lítið bar á fréttum um það að í bók Hörpu Njáls um Fátækt á Íslandi er því haldið fram að Reykjavíkurborg hafi þrengt svo að hópi fátæks fólks skömmu eftir að fyrrverandi borgarstjóri tók við völdum að þetta fólk hafi beinlínis farið á mis við góðærið í landinu og í auknum mæli þurft að leita ásjár Mæðrastyrksnefndar og annarra góðgerðarstofnana. Þessi sami fyrrverandi borgarstjóri hafði hampað þessari bók í kosningabaráttunni sem biblíunni sinni, hvorki meira né minna. Steininn tók hins vegar úr þegar sömu fjölmiðlar og fannst þetta ekki fréttnæmt sáu ástæðu til að mæta á blaðamannafund sem Félagsþjónustan í Reykjavík efndi til í þeim eina tilgangi að mótmæla þessu sem Harpa Njáls heldur fram. Svör Félagsþjónustunnar voru svo ljósrituð og birt algjörlega gagnrýnislaust; í frétt Morgunblaðsins var ekki minnst einu orði á gagnrýni Hörpu sem var þó tilefni blaðamannafundarins!