Áhugi fjölmiðlamanna á fátækt minnkaði mjög snögglega þegar upplýst var um að í bók eftir Hörpu Njálsdóttur kæmi fram, að skýringar á lengri biðröðum hjá Mæðrastyrksnefnd og skyldum félögum væru þær að Reykjavíkurborg hefði árið 1995 – árið eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir settist í stól borgarstjóra – breytt úthlutunarreglum sínum vegna styrkja til fátækra. Áhugi þeirra vinstri manna sem eru í framboði til Alþingis á þessu áður brýna máli minnkaði einnig mjög skyndilega við þessi tíðindi.
Ekki var rannsókn borgarhagfræðings, Sigurðar Snævarr, sem kynnt var á sérstökum fundi um barnafátækt á dögunum, síður til þess fallin að deyfa áhuga á fátækt. Rannsókn Sigurðar gerði alveg út af við þessa umræðu og það svo rækilega, að fæstir fjölmiðlar hafa fengið sig til að skýra frá niðurstöðum Sigurðar. Þeim tókst að skýra frá sumu af því sem fram kom á sama fundi og Sigurður kynnti niðurstöður sínar, en einhverra hluta vegna gufaði áhuginn alveg upp þegar kom að erindi Sigurðar.
Skýringin er ef til vill sú að þeir sem hlýddu á erindi Sigurðar hlutu að gera sér grein fyrir að tækju menn á annað borð mark á þeim rannsóknum sem hann kynnti, hlytu þeir að komast að þeirri niðurstöðu að fátækt hefði minnkað hér á landi. Samkvæmt útreikningunum, sem byggja á þeirri hefðbundnu en um leið vafasömu forsendu að þeir sem hafi tekjur sem séu undir helmingi miðgildis tekna í þjóðfélaginu, er niðurstaðan sú að fátækt hafi verið 4,2% árið 1995. Sé miðað við sömu fátæktarmörk en verðlag og tekjur ársins 2001 er niðurstaðan sú að hinum fátæku, þ.e. þeim sem eru undir fátæktarmörkunum svokölluðu, hefur á þessum árum fækkað niður í 2%. Fátækt hefur með öðrum orðum minnkað um meira en helming þegar notast er við þá aðferð sem algengust er og fjölmiðlamenn hafa hingað til tekið góða og gilda.
Þetta þótti ekki fréttnæmt, þrátt fyrir síbylju undanfarinna mánaða um mikla og vaxandi fátækt hér á landi. Sú síbylja studdist að vísu ekki við nein rök, en þótti engu að síður eiga brýnt erindi við almenning fyrst hún þjónaði málstaðnum. En það var fleira í erindi Sigurðar sem ekki þótti markvert þrátt fyrir fullyrðingar síðustu mánaða. Það þótti til dæmis ekki í frásögur færandi að fátækt meðal barna hafi farið minnkandi hér á landi og sé nú hvergi minni, nema í Svíþjóð.
Einhvern tímann hefði þótt saga til næsta bæjar að almenn fátækt hafi minnkað um meira en helming hér á landi og að einungis í Svíþjóð sé fátækt barna minni en hér. En þegar stutt er í kosningar og fjölmiðlamenn eru eins og þeirra er von og vísa, þá teljast þetta engin tíðindi.