Helgarsprokið 4. maí 2003

124. tbl. 7. árg.

Þó íslenskar stjórnmálaumræður geti orðið innihaldslitlar og glamurkenndar milli kosninga, þá er það ekkert miðað við það sem dynur á fólki þegar kosningar nálgast. Vekjast þá upp bæði venjulegir framagosar sem tilfinningasamir meinlokumenn og þarf venjulegt fólk oft verulega útsjónarsemi til að eignast næðisstund með sjálfu sér í friði fyrir predikunum þessara manna. Stundum eru það Evrópumál, stundum jafnréttismál en oftast eru það sjávarútvegsmálin sem þessir menn virðast geta rætt endalaust og alltaf verið viti sínu fjær. Og í þessari kosningabaráttu fer það ekki fram hjá neinum að það eru sjávarútvegsmálin sem eru að verða að allsherjar pólitísku eldóradói stjórnarandstöðunnar allrar, auk hinna og þessara vonarpeninga þar í kring. Og er nú ekkert lát á gjammi, rangfærslum og meinlokum.

„Og að minnsta kosti þrír stjórnmálaflokkar vilja nú ná fram „réttlæti“ með því að taka aflaheimildir af þeim sem hafa skuldsett sig til að kaupa þær, og svo á að leigja þær hæstbjóðanda, sem verður þá einhver allt annar sem sá sem er búinn að skuldsetja sig til kaupanna.“

Í þessari baráttu eru nokkur hugtök endurtekin frá morgni til kvölds og yfirleitt án nokkurs sérstaks rökstuðnings. Það er fyrst sagt – og er forsenda þess sem á eftir kemur – að fiskurinn í sjónum sé „sameign þjóðarinnar“. Næst er sagt að örfáum völdum gróðamönnum hafi verið „gefin“ þessi sameign annars fólks, og sé það hvorki meira né minna en „mesta eignatilfærsla Íslandssögunnar“ og jafnframt „mesta ranglæti Íslandssögunnar“. Er loks klykkt út með þeirri kröfu að „þjóðin endurheimti fiskimiðin“ og sé það „brýnasta réttlætismál samtímans“, jafnvel enn meira réttlætismál en „ókeypis leikskólar“ og er þá talsvert sagt. Þegar þetta hefur verið þulið drjúga stund er svo tekið til við að tóna nýjasta herópið, en „burt með gjafakvótann!“ gerir nú mikla lukku í ýmsum hugskotum.

Og öll þessi hróp eiga svo eitt sammerkt; þau halda hvorki veðri, vindum né rökum. Það er ekki þannig að „þjóðin eigi fiskimiðin“ eða hvernig það er sem menn orða grunnforsenduna fyrir því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé eignatilfærsla og ranglæti. „Nei heyrðu mig nú“, hugsar nú sjálfsagt einhver, „hvernig er hægt að halda þessu fram? Það vita allir að það segir í lögum að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar.“ Ekki er hægt að lá fólki þó það hugsi eitthvað á þessa leið, svo mjög hefur því verið haldið fram að með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi „sameign þjóðarinnar“ verið tekin og „afhent útvöldum gæðingum“. En lítum nú æsingalaust á staðreyndir málsins og sjáum hvað kemur út úr því.

Það er alveg hárrétt að í lögum segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, eins og það er orðað. Þetta er nánar tiltekið sagt í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, alveg rétt. En hvaða lög eru það sem geyma aflamarkskerfið sem notað er hér á landi, „kvótakerfið“ svokallaða? Það er þessi spurning, eða öllu heldur svarið við henni, sem fáir virðast átta sig á. Það eru nefnilega líka lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Eða í stuttu máli: Ákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ er einfaldlega í kvótalögunum, og þetta tvennt stangast ekki á. Ákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ merkir ekki, eins og sumir þó halda og byggja mikinn og tilfinningaríkan málflutning á, að einhver aðili, „íslenska þjóðin“, eigi fiskimiðin í sameign, svona eins og tveir menn geta átt eina bifreið í sameign. Þetta veitist sumum ákaflega erfitt að skilja, en ef menn hugsa aðeins um þá staðreynd að ákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ og ákvæðin um hið svonefnda „kvótakerfi“ eru í sömu lögum, þá átta eflaust ýmsir sig á því um hvað málið snýst – og ekki síður, um hvað málið snýst alls ekki. „Þjóðin“ er ekki „eigandi“ fiskimiðanna og „þjóðin“ hefur ekki verið „rænd eign sinni“.

Í liðinni viku skrifaði einn þekktasti lögfræðingur landsins, Sigurður Líndal prófessor emeritus, tvær greinar í DV þar sem hann fjallaði um þetta mál. Segir Sigurður þar að umrætt lagaákvæði um „sameign þjóðarinnar“ hafi orðið „tilefni glannalegra ályktana“, og er það ekki ofmælt hjá lagaprófessornum. Um þetta tiltekna ákvæði, sem hefur orðið svo mörgum efni til svo stórra orða, segir Sigurður Líndal:

Í reynd er það ekki annað en stefnuyfirlýsing sem felur í sér að löggjafinn minnir á víðtækan rétt sinn til að setja reglur um meðferð og nýtingu nytjastofnanna. Sannast sagna er ákvæðið óþarft því að þennan rétt hefur löggjafinn með stoð í fullveldi íslenska ríkisins með þeim takmörkunum sem stjórnar[skrár]ákvæði setja honum. Ákvæðið hefur ekki beina réttarverkan með því að enginn, hvorki þjóðin í heild né einstakir þegnar, getur gert tilkall til ákveðinna afmarkaðra réttinda með vísan til þess. Réttlæting auðlindagjalds á þeim forsendum að með því útgerðin að greiða þjóðinni, eða almenningi, “eiganda auðlindarinnar” fyrir afnotin er því merkingarlaus. Sama er að segja um réttlætingu á fyrningu eða endurúthlutun, á þeim forsendum að með því sé að skila þjóðinni eign sinni.
Fram til 1976 var meginreglan sú að öllum var heimil veiði á hafalmenningunum við Ísland. Í skjóli atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrárinnar nýttu frumkvöðlar í útgerð sér þennan rétt, lögðu fjármuni sína undir með því að fjárfesta í skipum, með því að þjálfa mannskap og afla þekkingar. Við þetta öðluðust þeir atvinnuréttindi sem njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinar. Stjórnarskrárverndað atvinnufrelsi helgaði stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi. Þegar takmarka þurfti veiðar á Íslandsmiðum var sú leið farin að miða aðallega við veiðireynslu bundna aflamarki á tilteknu tímabili en auðvitað hefði verið unnt að fara aðrar leiðir. Að baki þessari ákvörðun lágu þau siðferðilegu rök að útgerðarmenn skyldu njóta verðleika umfram aðra og þau hagkvæmnisrök að varðveita þekkingu og reynslu. Annað mál er að endalaust má deila um það hvað haft skyldi að viðmiði. Kjarni málsins er sá að hæpið er að tala um úthlutun veiðiheimilda; hitt er sönnu nær að atvinnuréttindi sem útvegsmenn höfðu þegar eignast voru nánar skilgreind og afmörkuð. Veiðireynslan fæst ekki án þess að ýmsu sé til kostað og áhætta tekin. Margra ára orðaflaumur um gjafakvóta er því merkingarlaus auk þess sem allt er á huldu um gefandann.

Í þessu er mikill kjarni fólginn. Það þurfti að takmarka sóknina í fiskistofnana. Þá var ákveðið að veiðirétturinn gengi fremur til þeirra sem höfðu verið að nýta auðlindina heldur en þeirra sem ekki höfðu verið að því. Í því skyni voru settar viðmiðunarreglur, sem menn geta auðvitað deilt um hvort hafi verið réttar eða ekki. En það er aukaatriði. Aðalatriðin í þessu máli eru þau að það er ekki þannig að „íslenska þjóðin“ sé sérstakur „eigandi“ fiskistofnanna við landið; það er ekki þannig að einhverjum mönnum hafi verið gefnar eigur annarra; það er ekki þannig að kvótakerfið sé „mesta eignatilfærsla Íslandssögunnar“. Og, eins og prófessor Sigurður Líndal orðar það, margra ára orðaflaumur um gjafakvóta er merkingarlaus.

Og ranghugmyndirnar um aflamarkskerfið eða áhrif þess eru næstum óþrjótandi. Því er stundum haldið fram að kerfið sé sérstaklega slæmt fyrir landsbyggðina, en samt er staðreyndin sú að kvóti hefur í áranna rás færst af höfuðborgarsvæðinu út á land. Því er haldið fram að eftir að kerfinu var komið á geti byggðarlög lent í því að aflaheimildir séu seldar úr þorpinu – og þar með væntanlega keyptar í einhverju öðru þorpi. Þetta er alveg rétt, en er engin breyting frá því sem áður var því þá voru verðmætin bundin við skipin sjálf en ekki aflaheimildir og þá var fólk í sífelldum ótta um að „karlinn seldi togarann úr plássinu“. Og að minnsta kosti þrír stjórnmálaflokkar vilja nú ná fram „réttlæti“ með því að taka aflaheimildir af þeim sem hafa skuldsett sig til að kaupa þær, og svo á að leigja þær hæstbjóðanda, sem verður þá einhver allt annar sem sá sem er búinn að skuldsetja sig til kaupanna. Svona mætti telja áfram og áfram en ranghugmyndirnar eru næstum endalausar, sem kannski er ekki nema von, þegar horft er til þess hve mikið er gert til að halda þeim við og koma nýjum á gang.

En það er líka hægt að segja eitt og annað satt um kvótakerfið. Eftir að kvótakerfinu var komið á hefur allt umhverfi sjávarútvegsins gjörbreyst. Þeir sem muna nokkur ár aftur í tímann muna vel að allt fram á tíunda áratug síðustu aldar fjölluðu flestir fréttatímar um „vanda sjávarútvegsins“. Gengi krónunnar var fellt í sífellu til að bæta útgerðinni tapið sem fékkst af óhagkvæmum rekstri. Alltaf þurfti nýjar og nýjar björgunaraðgerðir svo skipin hyrfu ekki á uppboð og öllu yrði lokað. Á níunda áratugnum taldi fjármálaráðherra meira að segja að skuldir útgerðarinnar við opinbera sjóði væru orðnar þvílíkar að útilokað væri að þær yrðu nokkurn tíma greiddar og stakk upp á því að þær yrðu þurrkaðar út „með einu pennastriki“ eins og hann orðaði það. Nú er hins vegar svo komið, að unnt er að reka útgerð með svo arðbærum hætti að hinir og þessir postular kalla það „mesta óréttlæti Íslandssögunnar“ og árlega eru stofnaðir nokkrir stjórnmálaflokkar sem ekki virðast hafa annað að markmiði en að ná fram hefndum á þessu fólki sem leyfir sér, þvert ofan í réttlætiskennd Guðmundar G. Þórarinssonar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Gunnars Örlygssonar, svo nokkur séu nefnd, að reka útgerð með ágóða á Íslandi.