Mánudagur 5. maí 2003

125. tbl. 7. árg.

Auðvitað er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekkert endilega harður sósíalisti í dag þótt hún hafi sagt fyrir margt löngu að „sósíalisminn sé lokatakmarkið“ í stjórnmálabaráttunni og fyrir ekki svo löngu lýst því yfir „að samkeppni sé dýr og almennt til leiðinda“. Kannski er hún bara venjulegur krati í dag þótt hún hafi aldrei verið í Alþýðuflokknum en alla tíð í Kvennalistanum. Kannski þykir henni EES samningurinn frábær í dag þótt hún hafi ekki stutt hann á sínum tíma. Hún er ekkert endilega forsjárhyggjan holdi klædd í dag þótt hana hafi fyrir nokkru langað til að kenna því fólki lexíu sem ekur um á einkabíl eða stundar íþróttir. Hver veit nema hún styðji nú frjálsan afgreiðslutíma verslana og sé fallin frá fyrri tillögum sínum um eina „neyðarverslun“ fyrir almenning utan leyfilegs afgreiðslutíma. Allt getur þetta hafa breyst, ekki síst ef Ingibjörg hefur látið auglýsingastofum Samfylkingarinnar eftir að hugsa fyrir sig. Hún gæti jafnvel verið trúverðugur stjórnmálamaður þótt Dagur B. Eggertsson læknir og borgarfulltrú rembist við að telja fólki trú um eitthvað allt annað í blaðagreinum.

En það er spurning hvort auglýsingastofan getur vakað yfir hverju fótmáli forsætisráðherraefnisins. Stofan fær nú kannski ekki nema 50 milljónir króna til að moða úr fyrir þessar kosningar. Ef til vill nægir það ekki til að stofan geti sett upp sólarhrings vakt í Borgarnesi. Kannski vita þessir gaukar á auglýsingastofunni ekki meira um muninn á persónuafslætti og skattleysismörkum en sjálft forsætisráðherraefnið. Og kannski eru þeir sem setja upp bæklingana ekki alltaf vissir um hver stefnan á að vera frá degi til dags. Lái þeim hver sem vill.

Í helsta kosningabæklingi Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar er vitaskuld undirritað ávarp frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur forsætisráðherraefni undir kjörorðunum „Til þjónustu reiðubúin“. Í ávarpi Ingibjargar segir meðal annars: „Samfylkingin vill breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálamanna.

Næringarrík matarsending frá opinberri neyðarverslun tryggir velsældina og losar menn við hversdagsleg innkaup.

Já hver vill ekki að hið opinbera taki við helstu verkefnum hins daglega lífs? Innkaupaferðir eru til dæmis óþolandi og færi betur á því að ein ríkisverslun sæi um að senda fólki hollan og staðgóðan matarböggul vikulega undir vandaðri tilsjón Manneldisráðs ríkisins. Þetta færi vel við tillögu forsætisráðherraefnisins um eina „neyðarverslun“. Til að nýta ferðina væri um leið hægt að losa fólk við óhreinu leppana en þvottur á einkaheimilum er vafalítið einn af hvimleiðari þáttum hins daglega lífs. Einstaklingum hefur alltof lengi verið treyst fyrir eigin tannhirðu. Fólk bæði burstar sjálft og er í sjálfsvald sett hvenær það fer til tannlæknis. Með því að fulltrúi hins opinbera, ríkis eða sveitarstjórna eftir atvikum, taki að sér bursta tennur fólks má bæði fækka þeim verkefnum sem fólk þarf að sinna dags daglega og tryggja samræmda, nútímalega og lýðræðislega burstun. Hér er aðeins fátt nefnt af verkefnum hins daglega lífs sem breyta má í opinber málefni og tryggja þannig almenna velsæld undir handleiðslu stjórnmálamanna. Allt væri þetta að sjálfsögðu boðið á Evrópuverði, plús skattar og gjöld. Svo vitnað sé í forsætisráðherraefnið verður ekki lofað að hækka skattana og gjöldin fyrir kosningar enda lofar enginn flokkur slíku fyrir kosningar.