Ífréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins í dag kemur fram að Ísland muni að öllum líkindum uppfylla ákvæði Kyoto bókunarinnar um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ráðuneytisins til nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Spár ráðuneytisins gera ráð fyrir að útblásturinn muni ekki aukast um meira en 10% frá árinu 1990 til áranna 2008 til 2012. Hér er þó ekki öll sagan sögð því stórar framkvæmdir sem auka úblásturinn um meira en 5% hver eru undanskildar í þessum útreikningum. Ísland fékk sérstakt ákvæði þess efnis við Kyoto bókunina. Álverið á Grundartanga, stækkun álversins í Straumsvík og síðast en ekki síst væntanlegt álver í Reyðarfirði eru því ekki talin með í þessum spám ráðuneytisins.
Árið 1998 lögðu þingmenn Samfylkingarinnarflokkanna, meðal annarra Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, fram tillögu til þingsályktunar um að Alþingi feli „ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.“ Samfylkingin hafði sömu kröfu uppi fyrir síðustu kosningar. Eins og Kyoto bókunin leit út á þeim tíma var ekki gert ráð fyrir að stórar framkvæmdir fengju undanþágu eins og síðar varð raunin. Samfylkingin var því að leggja til að Íslendingar undirrituðu samning sem var mun verri en síðar náðist að semja um. Hefði ríkisstjórnin farið að ráðum Samfylkingarinnar á þessum tíma hefði það komið í veg fyrir að álverið í Straumsvík hefði verið stækkað og frekari stækkun þess ásamt stækkun á Grundartanga og álverið á Reyðarfirði væru úr sögunni.
Þessu var raunar andmælt í tillögunni til þingsályktunar því í greinargerð með henni sagði: „Hérlendis hefur því verið haldið fram að öllum stóriðjuáformum sé teflt í hættu ef við gerumst aðilar að samningnum. Það er rangt. Við getum dregið úr útblæstri fiskiskipa og samgöngutækja með markvissum aðgerðum og dregið úr áhrifum mengunar með aukinni gróðurrækt og skógrækt, en landgræðsla og skógrækt eru rædd í tengslum við útfærslu Kyoto-bókunarinnar.“ Þetta var og er óábyrgur fyrirsláttur. Skógrækt, þótt hún væri stóruaukin frá því sem nú er, dugar skammt á móti þessum aukna útblæstri frá álverum og það er heldur ekkert sem bendir til að landsmenn losi sig við stóran hluta bíla- eða fiskiskipaflotans á næstu árum.