Það kom sér illa fyrir fréttastofu Stöðvar 2 í vikunni að hafa Árna Snævarr ekki lengur í liði sínu. Árni hefur nefnilega fréttanef og hefði eflaust náð að þefa uppi þá frétt að Árna Snævarr, fréttamanni á Stöð 2, hefði verið sagt upp störfum. En Árni var horfinn á braut og þess vegna var Stöð 2 eini fjölmiðill landsins sem ekki frétti af starfslokum Árna. Öllum öðrum fjölmiðlum þótti þetta hins vegar fréttnæmt og fluttu löng viðtöl við fréttamanninn fyrrverandi sem lýsti ofríki sem hann taldi eigendur Stöðvar 2 beita fréttastofuna.
Nú er auðvitað leiðinlegt þegar fólk missir vinnuna og sjálfsagt tekur það fólk sárar þegar það gerist fyrir allra augum eins og í tilfelli Árna og ýmissa fyrrverandi starfsfélaga hans á síðustu vikum. Engu að síður hafa fréttamenn annarra miðla rætt þessar uppsagnir ítrekað og gjarnan hnýtt við þær umræður nokkrum orðum um það sem þeir kalla „ritstjórnarlegt frelsi fréttastofu“. Það hugtak er hins vegar svona og svona. Í því felst einfaldlega að tilteknir starfsmenn fyrirtækis skuli stjórna því – eða stjórna því á ákveðnu sviði – en eigendur þess megi ekki hafa áhrif þar á. Þetta sjónarmið er hæpið. Það er í raun ekkert að því að eigandi fjölmiðils ákveði hvaða fréttir fjölmiðillinn segir eða við hvern hann talar. Ef Karl Garðarsson fréttastjóri Stöðvar 2 kaupir stöðina í fyrramálið, þá má hann alveg halda áfram að ákveða hvaða fréttir eru sagðar. Ætli ekki megi ímynda sér að á flestum fréttastofum sé einhver einn maður æðstur og hafi vald til að skera úr um álitamál. Það hvort þessi maður á fjölmiðilinn eða ekki skiptir ekki máli. Það hvort þessi maður er Karl Garðarsson fréttastjóri, Sigurður G. Guðjónsson forstjóri eða Jón Ólafsson aðaleigandi er frá almennu sjónarmiðu aukaatrði. Eða hvað ef Jón ákveður að ráða Sigurð sem fréttastjóra, mætti Sigurður þá ekki stjórna fréttastofunni? Eða ef Jón ákveður að ráða Jón, mætti Jón þá ekki stjórna fréttastofunni, bara af því að hann er eigandi?
Hvað ef einhver maður ákveður að stofna fjölmiðil og vera eini starfsmaður hans? Þá myndi hann auðvitað vera einráður um það sem birtist þar. En ef hann myndi nú ráða fleiri starfsmenn, mætti hann þá allt í einu ekki lengur skipta sér af, því þá væri hann farinn að „ógna“ einhverju „ritstjórnarlegu sjálfstæði“?