Föstudagur 29. ágúst 2003

241. tbl. 7. árg.
„Það er allt í lagi að einkavæða bissness, ríkið á í stórum dráttum ekkert að vera í bissness það á að einbeita sér að því að gera vel það sem aðrir geta ekki gert.“
 – Jón Baldvin Hannibalsson skiptinemi í Helsinki í viðtali við Fréttablaðið 29. ágúst 2003.

Tilvitnunin hér að ofan gæti sem best verið í einhvern Heimdelling sem telur að ríkið eigi ekkert að vera að stússast í atvinnurekstri en eigi að einhenda sér í að halda uppi lögum og reglu og hjálpa þeim sem geta ekki séð um sig sjálfir. Nú var Jón Baldvin Hannibalsson ekki í Heimdalli heldur æskulýðsfylkingu Alþýðbandalagsins áður en hann gerðist „frjálslyndur jafnaðarmaður“ og síðar faðir allra framfara á Íslandi í minningu heitustu stuðningsmanna sinna.

Geta aðrir en ríkið ekki rekið banka? Á kjörtímabilinu 1991 til 1995 brá Alþýðuflokkurinn hvað eftir annað fæti fyrir einkavæðingu ríkisbankanna. Ýmsir þingmenn flokksins, sem sitja auðvitað á þingi í dag fyrir „nútímalega jafnaðarmannaflokkinn“ sem varð til þegar nokkrir Alþýðubandalagsmenn og Kvennalistakonur sameinuðu sig Alþýðuflokknum og skuldum Alþýðubandalagsins, hafa síðan gortað af þessu afreki sínu. Ef þeir hefðu ekki verið í ríkisstjórn á þessum tíma hefðu bankarnir bara verið seldir og pólitíkusar misst áhrif sín á stjórn þeirra. Það mátti ekki.

Í fyrrnefndu viðtali lýsir Jón Baldvin Hannibalsson sig sérstaklega andvígan einkavæðingu skóla. Er það ekki síst af því að „við eigum að taka Bandarikin sem víti til varnaðar að því leyti að við eigum að slá skjaldborg um hið norræna velferðarríki á Íslandi“. Þetta segir Jón Baldvin sem sendi menn í fjölmiðla til að gagnrýna það að hann átti að flytjast frá höfuðborg Bandaríkjanna á nýja heimavist í norrænu velferðarríki.

Síðast en ekki síst er rétt að spyrja hvort aðrir en ríkið geti ekki rekið útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Jón Baldvin Hannibalsson studdi ekki afnám einokunar ríkisins útvarpsrekstri þegar til kastanna kom á Alþingi.