Ójöfnuður er að aukast í heiminum. Þetta vita allir og það sem meira er, flestir eru með það á hreinu hver skýringin er. Alþjóðavæðingin er auðvitað skýringin. Alþjóðavæðingin gerir hina fátæku fátækari og hina ríku ríkari. Þetta er nokkuð sem allir vita. Eða hvað? Er þetta ef til vill eitt af því sem er bara endurtekið nógu oft til að fólk er farið að trúa því? Líklega er það svo vegna þess að rannsóknir staðfesta ekki að bilið á milli ríkra og fátækra sé að aukast, hvað þá að alþjóðavæðingin valdi vanda hinna fátækustu. Í nýlegri rannsókn eftir Stanley Fischer, sem áður leiddi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en er nú yfirmaður hjá Citigroup bankanum, er borinn saman hagvöxtur og landsframleiðsla á mann á árunum 1980 til 2000. The Economist segir frá þessu og þar kemur fram að þegar þetta er borið saman sést að samhengið á milli hagvaxtar og landsframleiðslu á mann er með þeim hætti í heiminum að bilið á milli hinna ríkari og hinna fátækari fer minnkandi, því flestir hinna fátækari búa við meiri hagvöxt en hinir ríkari.
Ástæðan fyrir því að það dregur saman með hinum ríkari og hinum fátækari er einmitt hin voðalega alþjóðavæðing, sem sumir hafa mikið yndi af að gagnrýna. Að stórum hluta er þetta vegna þess að tvö stærstu ríki jarðarinnar, Kína og Indland, hafa nýtt sér alþjóðavæðinguna með því að opna fyrir viðskipti og hafa þar með opnað fyrir hagvöxt og bættan hag landsmanna. Þetta hafa fjölmörg fámennari ríki einnig gert með góðum árangri. Því miður eru þau fátæku ríki hins vegar til sem hafa lokað sig af og ekki tekið þátt í alþjóðavæðingunni. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, stundum spilltir einræðisherrar, stundum styrjaldarástand og stundum ef til vill bara misskilningur velviljaðra stjórnenda sem hafa talið að leiðin til ríkidæmis liggi í gegnum háa verndartolla og hvers kyns önnur ríkisafskipti.