Þriðjudagur 26. ágúst 2003

238. tbl. 7. árg.

Menn láta ekki deigan síga í jafnréttisiðnaðinum frekar en í öðrum greinum atvinnulífsins, nú þegar enn ein efnahagsuppsveiflan er í vændum. Atvinnumenn í greininni hafa átt ýmsa sterka leiki undanfarið. Skemmst er að minnast mannaráðningar fyrrverandi forstjóra „Jafnréttisstofu“ sem dómstóll dæmdi að hefði brotið í bága við jafnréttislög. Einkennilegur var allur málatilbúnaður í því máli, af hálfu beggja aðila, en svo sem ekkert einkennilegri en hin svokölluðu jafnréttislög bjóða upp á. Dómurinn sem eftir stendur er auðvitað eftir því. Nú stefnir í annað mál, ekki síður einkennilegt. Félag eitt hér á landi sem kennir sig við réttindi kvenna er að hita upp fyrir slag við dómsmálaráðherra. Félagið er ekki sátt við að ráðherrann hafi skipað karl en ekki konu í embætti dómara við Hæstarétt. Tvær konur höfðu sótt um embættið en nokkuð fleiri karlar. Félagið telur að beint hafi legið við að skipa aðra konuna. Er ráðherra nú hótað málsókn.

Í fljóti bragði virðst málflutningur kvenréttindafélagsins óspennandi og nauðalíkur þeim grátkór sem berst úr munni þeirra sem atvinnu hafa af því að gera lítið úr konum í hvert sinn sem hið opinbera ræður karlmann í laust starf. Af hverju var konan ekki ráðin? Þau voru jú jafnhæf. Og af því að ríkið má bara svara á einn veg segir það: Nei, maðurinn var víst hæfari. Eftir situr kvenumsækjandinn með það á bakinu að hafa verið minna hæf en einhver karl, sjálfri sér, og hinni óskilgreindu jafnréttisbaráttu, væntanlega til mikilla bóta. Af og til tekur þó einhver dómstóll sig til og ákveður að konan hafi verið hæfari. Allt að einu er þetta alltaf sami farsinn aftur og aftur. Mál kvenréttindasinnanna gegn dómsmálaráðherra leynir hins vegar á sér og yrði áhugavert, reyndar reglulega gaman líka, að sjá hvernig Hæstiréttur jafnaði ágreininginn. Það var jú Hæstiréttur sem lagði grunn að málflutningi kvenréttindasinnanna með umsögn sinni um hæfi allra umsækjanda til embættisins. Það hefur þó ekki enn komið fram hvernig kvenréttindafélagið túlkar þau óumbeðnu skilaboð Hæstaréttar til ráðherra að tveir tilteknir karlumsækjendur væru heppilegastir til starfans. Braut Hæstiréttur jafnréttislög með þessari skoðun sinni? Kannski fær dómurinn tækifæri til að fjalla um málið innan tíðar.