Fyrir kosningar er margt er skrafað og skeggrætt. Sumt af því er satt og rétt og jafnvel gagnlegt en annað er lítið annað en innantómt gaspur og gjamm, sem verður svo sem að hafa sinn gang og breytir litlu til eða frá. En svo er það lygin sem fylgir kosningabaráttunni og hún er heldur leiðinlegri en aðrir hlutar hinnar pólitísku umræðu. Einn af þeim frambjóðendum sem hafa orðið berir að ósannindum í þeirri kosningabaráttu sem nú stendur yfir er Bryndís Hlöðversdóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Í grein sem þingmaðurinn ritaði í Morgunblaðið í gær var fullyrðing sem tekur út yfir allan þjófabálk í ósannindum, jafnvel hjá örvæntingarfullum frambjóðanda Samfylkingarinnar fyrir kosningar, en fullyrðingin var eftirfarandi: „Þeir ríku eru orðnir ríkari en þeir fátækari fátækari.“ Það er með miklum eindæmum að nokkur maður sem hlýtur að vita betur geti látið svo augljós ósannindi frá sér fara. Staðreynd málsins er sú – og á það hefur margoft verið bent í kosningabaráttunni svo ekki getur það mögulega hafa farið fram hjá þingmanninum – að kaupmáttur meðalmannsins hefur aukist um 33% á innan við áratug og kaupmáttur þeirra sem hafa lægstu launin hefur aukist enn meira. Kaupmáttur mælir þær tekjur sem fólk heldur eftir skatta, þannig að sú fullyrðing að hinir fátækari hafi orðið fátækari er alger fjarstæða. Hin fullyrðingin, að hinir ríku séu orðnir ríkari, er að vísu rétt; þeir hafa orðið ríkari eins og aðrir.
Bryndís Hlöðversdóttir er býsna djörf að bera þessi ósannindi á borð fyrir kjósendur, því þá rifjast óhjákvæmilega upp árangur síðustu vinstri stjórnar í kjaramálum. Fullyrðingin um að hinir fátækari hafi orðið fátækari á nefnilega vel við þegar tímabil vinstri stjórnarinnar sem sat árin 1988 til 1991 er gert upp. Sá flokkur sem Bryndís fylgdi á þeim tíma, Alþýðubandalagið, átti aðild að þeirri ríkisstjórn, og einnig Alþýðuflokkurinn, sem ásamt Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum myndaði þann geðfellda flokk Samfylkinguna. Í tíð þeirrar ríkisstjórnar tókst svo vel til í efnahagsstjórn og uppbyggingu atvinnulífsins – ekki síst með sífelldum skattahækkunum – að kaupmáttur í þjóðfélaginu lækkaði umtalsvert. Og það voru ekki aðeins hinir ríkari eða meðaljónarnir sem þurftu að þola kaupmáttarrýrnun á þessum tíma, bætur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun lækkuðu ekki síður. Það kemur því úr hörðustu átt að Samfylkingarmenn skuli reyna að skrökva því að kjósendum nú að hinir fátækari hafi á síðustu árum orðið fátækari.