Föstudagur 3. mars 2000

63. tbl. 4. árg.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur áminnt fyrirtækið Hringrás fyrir förgun á áfengi fyrir ÁTVR en etanólið í áfenginu er flokkað sem spilliefni. Raunar er afar fátítt að sjá áfengi hellt niður. Það eru aðeins kampakátir lögreglumenn sem gómað hafa landasala sem eru þekktir fyrir að sýna sig við slíka iðju en ekki er vitað til að þeir hafi fengið áminningu Heilbrigðiseftirlitsins.

Ástæðu þessarar niðurhellingar má rekja til þess furðulega fyrirkomulags sem er á áfengismálum hér á landi, en ef áfengi væri ekki jafn dýrt og raun ber vitni hefði enginn fyrir því að smygla því til landsins eða brugga það sjálfur. Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um að fela fjármálaráðherra að stofna nefnd (auðvitað verður að stofna nefnd!) sem hafi það hlutverk að undirbúa reglur sem geri mögulegt að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. Er vonandi að þessi tillaga verði samþykkt, því hún er þó skref í átt til eðlilegri meðferðar áfengis.

Önnur þingsályktunartillaga liggur fyrir Alþingi, en hún snýst um að þeir sem selja tóbak verði að hafa til þess sérstakt leyfi. Ein af „röksemdunum“ fyrir tillögunni er sú að í skoðanakönnun hafi 56% fólks lýst sig mjög eða frekar hlynnt því að fækka sölustöðum tóbaks. Hvernig geta þetta verið rök fyrir því að seljendur tóbaks þurfi til þess leyfi? Hvaða máli skiptir þó tiltekinn hópur fólks hafi þá skoðun að betra væri að tóbak væri selt á færri stöðum en nú er? Svarið við því er einfalt, það skiptir engu máli. Hvorki meirihluti fólks né minnihluti á að fá að kúga aðra og banna þeim að eiga viðskipti sín á milli. Vilji kaupmaður selja reykingamanni vindlinga eiga 56% þjóðarinnar ekki að geta sameinast um að banna slíkt. Og það hefur reyndar tæpast verið hugsun þeirra sem svöruðu spurningunni að með því væru þeir að stuðla að því að frelsi annarra yrði heft.

frelsi
frelsi

Bókaklúbburinn Liberty Fund hefur gefið út bókalista sinn fyrir árið 2000 og er óhætt að segja að hvorki hann né innihald hans hafi verið veglegra og þurfti þó nokkuð til að slá fyrri listum við. Bókaklúbburinn gefur út eigin útgáfur af þeim bókum sem hann býður. Þeir sem vilja eignast á ódýran hátt fallegar útgáfur af sígildum verkum eldri meistara á borð við Adam Smith, Wilhelm von Huboldt, Edmund Burke, Herbert Spencer, William Graham Sumner, Bernard Mandeville, David Hume, David Ramsay, Fisher Ames, Lord Acton o. fl. ættu að kíkja á heimasíðu klúbbsins eða ná sér í pöntunarlistann við fyrsta tækifæri. Þrátt fyrir veglega útgáfu og góðan frágang er verðið á bókunum hlægilega lágt. Að vísu bætir íslenska ríkið 25% við verðið þegar bækurnar berast til landsins og tollverðir rífa bækurnar upp og líma þær svo aftur með tollaralímbandi. Merki bókaklúbbsins, sem sést hér að ofan er fyrsta þekkta orðið yfir frelsi, og var ritað árið 2300 fyrir Krists burð.