Laugardagur 4. mars 2000

64. tbl. 4. árg.

Nú styttist í að Samfylkingin haldi stofnfund og blási þar með enn eina ferðina til sameiningar vinstri manna. Þetta verður vitanlega enn hlægilegra nú en áður þegar ljóst er hve Vinstri grænir standa sterkt á vinstri væng stjórnmálanna. En það er með þennan stofnfund eins og annað sem „sameinaðir“ vinstri menn taka sér fyrir hendur að honum fylgja óhjákvæmilega töluverð leiðindi og mikil misklíð. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir til dæmis lýst því yfir að hún standi ekki jafnfætis öðrum frambjóðendum taki hún ákvörðum um að bjóða sig fram til formanns. Skýringin á þessu mun vera sú að þó í fyrri umferð, sem er fyrir stofnfundinn, fái allir sem hafa skráð sig að kjósa til formanns, þá verður seinni umferð kosningarinnar á fundinum sjálfum, ef seinni umferðarinnar verður þörf á annað borð. Jóhanna segir að á fundinum hafi A-flokkarnir gömlu yfirburði því þeir velji flesta fulltrúana. Jóhanna hefur því áhyggjur af að þó hún bjóði sig fram og sigri í fyrri umferðinni muni klíkurnar sem ráða litlu A-flokkunum ýta henni til hliðar á fundinum sjálfum.

Þessar áhyggjur hennar eru ekki ástæðulausar þegar horft er til þess hvernig þessar litlu klíkur fóru með hana eftir prófkjör Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar. Í prófkjörinu gjörsigraði hún andstæðinga sína og var 1.500 atkvæðum yfir Össuri Skarphéðinssyni, sem hélt þá og heldur víst enn að hann hafi talsvert fylgi til að leiða framboð vinstri manna. (Þessi sjálfsmynd Össurar er reyndar enn furðulegri þegar til þess er litið að einungis munaði 40 atkvæðum að hann endaði í fimmta sæti listans.) Eftir þessi úrslit sáu þeir sem stjórna A-flokkunum að við svo búið mátti ekki standa. Var þá gripið til þess ráðs að velja framboðinu „talsmann“. Beint lá við að Jóhanna yrði talsmaðurinn, en þó var Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins valin til þess verks. Margrét hafði engan sýnilegan stuðning og var m.a.s. búin að missa tökin á eigin flokki sem skrapp hratt saman á þessum tíma. Hún réttlætti eigið val þó með því meðal annars að prófkjör Samfylkingarinnar hefðu í hennar huga verið „skrumskæling af lýðræðinu“.

Jóhanna getur í ljósi reynslunnar verið nokkuð viss um að fari hún í framboð til formanns Samfylkingarinnar muni hún ná kjöri. Hún getur jafnframt gefið sér að hún fái ekki að verða formaður. Þetta er auðvitað allsérstök staða fyrir stjórnmálamann að standa frammi fyrir og það hlýtur að vera henni umhugsunarefni hvort hag hennar og stuðningsmanna hennar væri ekki betur borgið ef hún stofnaði sinn eigin flokk. Hún er reyndar svo heppin að vera með nafnið tilbúið, því hann gæti heitað „Þjóðvaki II: Minn tími er kominn og farinn“.