Fyrir skömmu var haldið upp á 10 ára afmæli umhverfisráðuneytisins. Ráðuneytið var stofnað af hinni eyðslusömu, skattaglöðu og síðustu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Umhverfismál voru að komast í tísku um þessar mundir og því var þetta talið til vinsælda fallið að stofna ráðuneyti um þau. En það hentaði einnig ágætlega til að kaupa fylgi nokkurra þingmanna Borgaraflokksins við ríkisstjórnina. Varð raunar úr þessari stofnun hálfgerður skrípaleikur þar sem væntanlegur ráðherra úr Borgaraflokknum ritaði bréf út í heim þar sem hann kynnti sig sem ráðherra áður en hann tók við embættinu og fór litlar frægðarferðir á jeppa fínum og dýrum sem keyptur var undir hann. Þessi aðdragandi minnir á að undanfarið hafa jafnréttismál verið mjög í tísku þótt hvergi halli á annað kynið í lögum nema hvað varðar lög um fæðingarorlof en þau lög má afnema hvenær sem menn vilja og afnema um leið þá mismunun sem í lögunum felst en hún varðar raunar ekki aðeins kynin heldur einnig þá sem eiga börn og hina sem eiga þau ekki. Vegna þessarar jafnréttistískubylgju boðaði Samfylking vinstri manna stofnun nýs ráðuneytis jafnréttismála fyrir síðustu kosningar en það hentaði einnig ágætlega til að kaupa falar og hámenntaðar þingkonur Kvennalistans til fylgilags við framboðið.
En það er fróðlegt að skoða hvernig svona nýlegu ráðuneyti reiðir af á fyrsta áratugnum. Á fyrsta fjárlagaári þess var gert ráð fyrir 23 milljónum á verðlagi þess árs til reksturs ráðuneytisins og var ráðuneytið „ódýrast“ allra ráðuneyta. Þetta samsvaraði kostnaði við hálft embætti forseta Íslands. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1994 var ráðuneytið hins vegar orðið álíka dýrt og þrjú forsetaembætti og hafði þá skotið sex öðrum ráðuneytum aftur fyrir sig hvað kostnað varðar. Í dag kostar rekstur ráðuneytisins 148 milljónir króna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2000. En ráðuneytið eyðir ekki aðeins meira og meira með hverju árinu sem líður heldur streyma frá því lög og reglur og þeir sem vilja kynna sér helstu afreksverkin á því sviði geta heimsótt sérstakan vef á heimasíðu ráðuneytisins og kynnt sér helstu regluverkin. Hér geta menn svo kynnt sér helstu stofnanir sem ráðneytinu hefur tekist að sölsa undir sig, oft eftir mikið reiptog við önnur ráðuneyti, ásamt þeim nýju stofnunum sem það hefur getið af sér. Það er því ekki alveg við hæfi sem ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins sagði í ávarpi á 10 ára afmælinu: „Eitt má þó fullyrða um aldur umhverfisráðuneytisins en það er að ráðuneytið er yngsti fjölskyldumeðlimurinn í stjórnarráðsfjölskyldunni og hefur þroskast vel. Ráðuneytið nálgast nú óðum kynþroskaaldurinn og þegar að því kemur þá mega hinir fjölskyldumeðlimirnir fyrst fara að vara sig.“ Bæði hin ráðuneytin og ekki síður skattgreiðendur hafa mátt vara sig á peningagreddu þess frá fyrsta ári.
Í afmælisávarpi sínu veittist ráðuneytisstjórinn Magnús Jóhannesson einnig að Magnúsi Jóhannessyni siglingamálastjóra (já, sami maðurinn!) fyrir að hafa veitt neikvæða umsögn um væntanlega stofnun ráðuneytisins fyrir rúmum tíu árum en í umsögn sinni sagði siglingamálastjóri : „Stofnunin hefur hvergi lýst þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að setja á fót sérstakt umhverfisráðuneyti til þess að fara með yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands, þvert á móti hefur þeirri skoðun verið lýst að árangur opinberrar stefnu í umhverfisvernd muni á hverjum tíma ráðast frekar af vilja löggjafans til lagasetningar og útvegun fjármagns til verkefna heldur en með hvaða hætti yfirstjórn málaflokksins er komið fyrir innan stjórnkerfisins.“ Fyrir þessa umsögn sagði ráðuneytisstjórinn í ávarpi sínu að hann vonaðist til að þáverandi siglingamálastjóri „hefði tekið út nokkurn þroska síðan“ og að umsögn hans bæri vott um „þröngsýni“ og „skort á framtíðarsýn“.
Lýsing ráðuneytisstjórans á starfi fyrsta umhverfisráðherrans er einnig afar sérstök: „Fyrsti umhverfisráðherrann Júlíus Sólnes stýrði ráðuneytinu frá 23. febrúar 1990 til 29. apríl 1991. Hann hlaut það vandasama verkefni að byggja upp ráðuneyti úr engu enda var það undantekning að starfsfólk flyttist með verkefnum úr öðrum ráðuneytum í umhverfisráðuneytið.“ Það er í fyrsta lagi fráleitt að halda því fram að Júlíus Sólnes hafi þurft að „byggja upp ráðuneytið úr engu“. Til þess fékk hann tugi milljóna úr vösum skattgreiðenda. Það er þó ekki síður eftirtektarverð játningin sem ráðuneytisstjórinn gerir með því að segja það hafa verið undantekningu að fólk flyttist með verkefnum úr öðrum ráðuneytum. Það hefur með öðrum orðum undantekningarlítið þurft að ráða nýtt fólk til viðbótar því sem áður sinnti verkefnunum þegar þau fluttu úr öðrum ráðuneytum yfir í umhverfisráðuneytið. Það er gaman þegar embættismaður játar svona óráðsíu – ekki síst þegar hann telur sig vera að flytja lofræðu um ráðuneytið sitt.