Vefþjóðviljinn 49. tbl. 20. árg.
Svonefnt Borgunarmál er ágætis kennslustund fyrir áhugamenn um rekstur samfélagsbanka og aðra trúaða á mátt ríkisreksturs og opinbers eftirlits.
Þarna rak Samkeppniseftirlit ríkisins á eftir Landsbanka ríkisins að selja eigur sínar sem fjármálaeftirlit ríkisins vottaði. Til hliðar er svo bankasýsla ríkisins sem fer með hlut ríkisins í bankanum.
Þetta er rútínan í ríkisrekstri.
Þess vegna er svo mikilvægt að koma fjármálafyrirtækjum úr eigu ríkisins. Til þess þarf einkavæðingu og eins og menn þekkja er alltaf rifist um niðurstöðuna, hver sem hún er. Vefþjóðviljinn man í fljótu bragði ekki eftir einkavæðingu sem ekki hefur verið þrasað um.
Af þeim sökum er freistandi að einkavæða einkavæðinguna með því að senda landsmönnum öllum sinn hlut í ríkisbönkunum, eða samfélagsvæða samfélagsbankana. Landsmenn geta þá sjálfir séð um að selja bankana.