Miðvikudagur 17. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 48. tbl. 20. árg.

Gimpkúlan komin upp í fjölmiðlamenn eins og svo oft áður þegar Samfylkingin á í hlut.
Gimpkúlan komin upp í fjölmiðlamenn eins og svo oft áður þegar Samfylkingin á í hlut.

Hér var um daginn minnst á að fjölmiðlar taka vinstrimenn öðrum tökum en hægrimenn. Fréttamenn, álitsgjafar og stjórnmálamenn töldu þannig ekki stórmál þótt formaður Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, talaði opinberlega um „þennan ófétis Hæstarétt“.

En skömmu áður höfðu fréttamenn í raun gert lítið með fleira sem frá formanni Samfylkingarinnar kom.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkarinnar sendi öllum flokksmönnum sínum bréf þar sem hann fór yfir málin, ekki síst hvaða axarsköft forysta flokks hans hefði gert á síðustu árum.

Um eitt helsta deiluefni íslenskra stjórnmála síðustu árin sagði hann:

Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið.

Hvernig stendur á því að fréttamenn flýta sér að gleyma þessum orðum? Hvers vegna er ekki fjallað um þau af þeirri alvöru sem þau kalla á?

Hvernig var þetta flókna baktjaldasamkomulag og hverjir gerðu það? Og hvenær var það gert?

Hvers vegna gerðu flokkarnir baktjaldasamkomulag vorið 2009, þegar frasarnir um gegnsæi og „allt uppi á borðum“ voru hvað vinsælastir?

Hvers vegna halda fréttamenn ekki áfram að spyrja þar til þeir fá svör? Hvernig var þetta baktjaldasamkomulag og hverjir gerðu það? Hvenær var það gert?