Mánudagur 14. mars 2016

Vefþjóðviljinn 74. tbl. 20. árg.

Íslenskir Evrópusambandssinnar fengu upplýsingar á dögunum. Jón Baldvin Hannibalsson, sem til margra ára var einn harðasti talsmaður aðildar Íslands að ESB, hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að algert óráð væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Eins og svo oft áður notar Jón Baldvin orðalag sem allir skilja. Evrópusambandið er eins og „brennandi hús“. Enginn á að láta sér detta í hug að ganga inn í eldhafið. Jón Baldvin segir einnig að peningasamstarf evruríkjanna sé byggt á röngum grunni og standist ekki.

Þegar jafnvel Jón Baldvin Hannibalsson hefur komist að þeirri niðurstöðu að Evrópusambandið sé „brennandi hús“ þarf ekki að koma á óvart að einsmálsflokkurinn Samfylkingin missi mikið fylgi.

Enda reynir flokkurinn nú í ofboði að koma sér um nýju Eina máli. Nú skal það vera stjórnarskrá lýðveldisins. Nú er alveg lífsnauðsynlegt að „endurskoða“ hana. Enginn veit samt hvað það er sem núverandi stjórnarskrá hindrar, en væri óskaplega gagnlegt. Hún hefur reyndar reynst ákaflega vel. En svo mikið hefur verið talað um stjórnarskrána undanfarin ár að talsverður hópur manna trúir því statt og stöðugt að hana verði endilega að „endurskoða“, því það hafi í raun farist fyrir í sjötíu ár og því sé allt í steik. Og þessi hópur á að vera markhópur Samfylkingarinnar á meðan ekki er einu sinni hægt að sannfæra Jón Baldvin um að ganga í Evrópusambandið.

En æstustu Evrópusambandssinnarnir hafa fæstir skipt um skoðun, þrátt fyrir hreinskilnisleg orð Jóns Baldvins. Næstu mánuðina munu þeir ekki tala opinskátt fyrir inngöngu í Evrópusambandið. En þeir munu vinna að því sama markmiði, án þess að segja það hreint út. Þeir munu reyna að setja „aðildarviðræður“ af stað aftur, um leið og þeir verða í aðstöðu til. Þar munu þeir treysta á að nægilega stór hópur manna skilji ekki, að „aðildarviðræður“ geta eingöngu farið fram ef land hefur ákveðið að það vilji ganga í Evrópusambandið. Það er ekki hægt að eiga „aðildarviðræður“ til þess eins að „fá að sjá samninginn“.

Ríki sem segist vilja „halda áfram aðildarviðræðum“ eða „hefja aðildarviðræður á ný“ eða „fá að sjá samninginn“ er að lýsa því yfir á alþjóðavettvangi að það hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið. „Aðildarviðræður“ snúast um að fara yfir hvaða reglum umsóknarríkið þarf að breyta hjá sér til að þar verði sömu reglur og í Evrópusambandinu. Það eru „samningaviðræðurnar“ sem einhverjir halda að hafi farið fram og ESB-sinnar vilja hefja strax á næsta ári.