Helgarsprokið 13. mars 2016

Vefþjóðviljinn 73. tbl. 20. árg.

Á dögunum var hér talað um hið ótrúlega mál, þegar alþingismenn ætluðu að gera það einfaldara að fá dæmd mál endurupptekin og bjuggu til „endurupptökunefnd“. Niðurstaðan varð hins vegar ekki aðeins sú að nýja nefndin yrði gagnslaus heldur verður hún til þess að mun nú þarf að komast yfir tvo hjalla en ekki einn til þess að fá mál endurupptekið.

Þetta er í raun ótrúlegt afrek hjá þingmönnunum.

En á sínum tíma voru þeir margir mjög ánægðir með hve hugmyndin þeirra væri snjöll.

Birgitta Jónsdóttir, einn helsti talsmaður málsins, sagði á Alþingi að þetta mál hefði verið eitt af því sem hún hefði fengið „að halda utan um“. Hún sagði líka að hún hefði verið upprunalegur framsögumaður málsins og fengið þannig mikla innsýn í mikilvægi þess. Málið væri mikil réttarbót.

Siv Friðleifsdóttir talaði um hve málið væri gott og nefndi sérstaklega að það væri þingmannamál. Það sýndi hve vinnubrögð á Alþingi hefðu batnað að þetta mál hefði verið samþykkt.

Þriðji þingmaðurinn sem taldi málið sérstaklega gott var Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Hún sagði að menn myndu nú sjá fram á öruggara umhverfi, skilvirkara og gegnsærra.

Einmitt.

En um þetta er fleira að segja. Ekki síst má spyrja þeirrar augljósu spurningar, hvort ekki sé augljóst, að þeir sem ekki ráða við að búa til eina endurupptökunefnd séu líka þeir sem best vita hvernig á að breyta stjórnarskránni?

Af einhverjum ástæðum hyggst innanríkisráðuneytið ekki hafa frumkvæði af því að lögin um endurupptökunefndina verði felld úr gildi, heldur eingöngu það ákvæði þeirra sem sagði að nefndin gæti fellt dóma úr gildi. Fréttamenn hljóta að vilja fá að vita hvers vegna nefndin á að starfa áfram, þegar í ljós er komið að hún hefur ekki vald til að ákveða að mál verði endurupptekið.