Laugardagur 12. mars 2016

Vefþjóðviljinn 72. tbl. 20. árg.

Það er ekkert nýtt að það sé átak fyrir fólk að kaupa íbúðarhúsnæði. Ríkið gæti létt fólki það verk með því að hypja sig á brott með sín eitruðu úrræði í húsnæðismálum og svo lækkað skatta.
Það er ekkert nýtt að það sé átak fyrir fólk að kaupa íbúðarhúsnæði. Ríkið gæti létt fólki það verk með því að hypja sig á brott með sín eitruðu úrræði í húsnæðismálum og svo lækkað skatta.

Það er mikið kvartað undan húsnæðismálum, ekki síst unga fólksins. Það er meira en að segja það að kaupa íbúð, ekki síst fyrir unga fólkið að kaupa sína fyrstu.

En þetta hefur ekki aðeins verið með þessum hætti undanfarin ár heldur áratugi og aldir. Bæði hér og annars staðar.

Þetta eru langstærstu kaup flestra um ævina. Það kemur ekki á óvart að þau séu erfiður hjalli.

Því má heldur ekki gleyma í þessu samhengi að fólk er sífellt lengur í skóla með því tekjutapi og og jafnvel skuldsetningu sem skólavist fylgir. Það gæti verið hluti skýringar á því hvers vegna það kaupir fyrstu íbúð síðar á lífsleðinni en forfeður þeirra.

Þess vegna er engin ástæða til að bíða eftir einhverjum töfralausnum hins opinbera á „húsnæðismálum ungs fólks.“ Þær „lausnir“ sem hið opinbera býður hafa flestar öfugar afleiðingar við það sem þeim var ætlað. Vaxtabætur renna á endanum til fjármálafyrirtækja í formi hærri vaxta og húsaleigubætur til leigusalans.

Hins vegar gæti hið opinbera hætt að flækjast fyrir í þessum efnum. Sveittir sveitarstjórnarmenn eru kannski ekki mestu skipulagssnillingar í veröldinni þótt þeir hafi tekið sér allt vald í þeim efnum. Byggingareglugerðir eru einstrengingslegar og valda óþarfa kostnaði. Reglur ríkisvaldsins um hvað og hvernig má lána líkt og takmarknir á svonefndum lánsveðum eru einnig hindrun sem mætti hverfa.

Og síðast en ekki síst mætti lækka skatta svo fólk geti lagt fyrir og greitt af afborgunum með launatekjum sínum.