Vefþjóðviljinn 61. tbl. 19. árg.
Þá eru þingmenn byrjaðir að tala um hvort ekki verði lagt fram „lyklafrumvarp“.
Hugmyndin um „lyklafrumvarp“ er ein af þeim töfralausnum sem einhverjir töluðu fyrir í framhaldi af bankahruninu. Sá sem skuldar peninga vegna fasteignakaupa á bara að geta „skilað lyklunum“ en ekki borgað skuldina.
Þessi hugmynd var ekki raunhæf. Ef ríkið vildi setja þessa reglu þýddi það einfaldlega að ríkið myndi borga þessar skuldir sjálft.
Staðan er mjög einföld. Jón fær peninga lánaða hjá Gunnu, eða banka eða einhverjum öðrum, og notar peningana til að kaupa sér íbúð. Lánveitandinn á auðvitað að fá peningana sína til baka. Til að tryggja það, eins og kostur er, fær lánveitandinn veð í fasteigninni sem Jón kaupir. Auðvitað er greiðsla skuldarinnar aðalatriði, veðið er eingöngu til vara. Hugmyndin um lyklafrumvarp er að ríkið segi við Gunnu að Jón þurfi ekki að standa við samninginn, hún fái ekki borgað en geti tekið íbúðina sem Jón ætlaði að kaupa, og svo geti hún reynt að selja hana.
Á sama tíma og þúsund aðrar íbúðir koma á markaðinn vegna „lyklafrumvarpsins“.
Ef einn skuldar öðrum peninga þá á lánveitandinn kröfu á skuldarann. Ríkið getur ekki fellt þá kröfu úr gildi nema borga skuldina sjálft. Í þessu dæmi myndi ríkið svo eignast veðin í staðinn.
„Lyklafrumvarpið“ gengur í reynd út á að ríkið borgi upp núverandi fasteignalán fólks en fái í staðinn íbúðir um allt land.
Til framtíðar litið yrðu svo lánveitendur að vega þessa auknu hættu á því að fá lyklana að veðsettum fasteignum í hausinn upp með hærri vöxtum.
Eftir síðustu kosningar ákváðu stjórnvöld að standa fyrir „leiðréttingunni“, og þannig voru fasteignalán fólks lækkuð verulega. Stjórnmálamenn verða að fara að segja það skýrt að tími slíkra aðgerða sé liðinn.