Helgarsprokið 1. mars 2015

Vefþjóðviljinn 60. tbl. 19. árg.

Nú viðurkennir jafnvel Evrópusambandið sjálft að tilskipun þess um notkun endurnýjanlegs eldsneytis leiðir til aukinnar mengunar og náttúruspjalla. Fer þá ekki að verða óhætt fyrir alþingi að afnema slíkar kvaðir úr íslenskum lögum?
Nú viðurkennir jafnvel Evrópusambandið sjálft að tilskipun þess um notkun endurnýjanlegs eldsneytis leiðir til aukinnar mengunar og náttúruspjalla. Fer þá ekki að verða óhætt fyrir alþingi að afnema slíkar kvaðir úr íslenskum lögum?

Vefþjóðviljinn hefur um árabil gagnrýnt þá stefnu Evrópusambandsins sem skyldar bíleigendur til að nota endurnýjanlegt eldsneyti að ákveðnu hlutfalli (10%) sem eldsneyti á bíla sína.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra leiddi þessa hörmulegu stefnu í íslensk lög vorið 2013 að frumkvæði fyrirtækisins Carbon Recycling International. Þetta óþarfa lagaboð kostaði Íslendinga um 700 milljónir króna í auknum gjaldeyrisútgjöldum á síðasta ári. Lífolíurnar sem fluttar eru til landsins til uppfyllingar laganna eru miklu dýrari en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.

En nú er Vefþjóðviljinn að eignast enn einn óvænta bandamanninn í þessari baráttu gegn stefnu Evrópusambandsins. Nei, það er ekki Al Gore eða helstu umhverfisverndarsamtök heims sem þegar hafa snúist gegn þessari lífeldsneytisstefnu á undanförnum misserum. Nei, nýjasti félaginn í fordæmingu á notkun matvæla á bílvélar er Evrópusambandið sjálft. 

Á vef Evrópuþingsins í vikunni frá því að umhverfisnefnd þingsins hafi nú samþykkt að sett verði 6% þak á notkun matjurta í eldsneyti. Um ástæður þess að setja beri 6% hámark á það sem hingað til hefur verið 10% lágmark segir á vef Evrópuþingsins:

Notkun akurlendis til ræktunar á lífeldsneyti skerðir það land sem er til ráðstöfunar undir matvælaframleiðslu. Það eykur því líkurnar á því að nýtt land sé brotið undir ræktun matjurta, til dæmis að skógar séu ruddir. Þetta hefur verið nefnt óbein breyting á landnýtingu. Skógareyðing eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda og getur þar með vegið á móti þeim ávinningi sem er af notkun lífeldsneytis.

Þrátt fyrir að Evrópusambandið geri sér grein fyrir neikvæðum afleiðingum af notkun lífeldsneytis virðist það ekki ætla að víkja frá kröfunni að menn noti að lágmarki 10% endurnýjanlegt eldsneyti en þó setja 6% hámark á þann hlut sem má valda skógareyðingu, aukinni mengun, hærra matarverði og hungri í heiminum.

Ástæðan fyrir því að Evrópusambandið gengur ekki alla leið og afnemur kröfuna er þrýstingur frá ræktendum og framleiðendum lífeldsneytis en margir þeirra rötuðu einmitt og einvörðungu inn á þá braut vegna tilskipana sambandsins um að menn ættu að nota slíkt eldsneyti. Nú hrópa þeir að sjálfsögðu rekstur að þeirra stöðvist og störf muni glatast haldi sambandið ekki fast í hina vondu stefnu sína. 

Hinar heimskulegu tilskipanir Evrópusambandsins um endurnýjanlegt eldsneyti hafa þannig búið til hagsmuni sem koma í veg fyrir að sambandið geti afnumið þær.

En hér á landi er vonandi ekkert sem kemur í veg fyrir að spillingarlög Steingríms J. um þetta efni verði slegin af.