Vefþjóðviljinn 289. tbl. 17. árg.
Eins og menn vita er mjög misjafnt hvaða niðurstöður skoðanakannana þykja fréttnæmar í Ríkisútvarpinu. Sumarið 2009, þegar Andríki fékk Capaent-Gallup til að kanna hug kjósenda til tveggja helstu baráttumála vinstristjórnarinnar, ESB-inngöngubeiðninnar og Icesave-laganna, var aldrei minnst á niðurstöðurnar í fréttum Ríkisútvarpsins.
En sumar niðurstöður eiga hins vegar greiðari leið í fréttir Ríkisútvarpsins. Einna greiðust er leiðin þar ef spurt er hinnar villandi spurningar um hvort menn vilji ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og efna svo til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú spurning er vægast sagt villandi, þar sem engar samningaviðræður hafa nokkurn tíma farið fram um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Umsókn, eins og Alþingi sendi inn, án þjóðaratkvæðagreiðslu, sumarið 2009, er nefnilega viljayfirlýsing landsins um inngöngu í Evrópusambandið en ekki einhver ósk um að sjá hvað „er í boði“. „Viðræðurnar“ eftir það snúast eingöngu um að farið er yfir það hvernig Íslandi gangi að breyta lögum og reglum í samræmi við kröfur Evrópusambandsins.
Það er sjálfsagt að spyrja fólk hvort það vilji ganga í Evrópusambandið. Sérstök spurning um hvort menn vilji „ljúka viðræðum“, svona eins og verið að sé að spyrja hvort menn séu samviskusamir og vilji ljúka einhverju verki, er eingöngu hugsuð til þess að veiða þá, sem halda ranglega að verið sé að „semja við Evrópusambandið“, til að lýsa yfir stuðningi við áframhaldandi vinnu við að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.
Sótt var um inngöngu í Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar með er ekki ástæða til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að afturkalla sömu ákvörðun. Báðir stjórnarflokkar eru eindregið á móti aðild að Evrópusambandinu. Aðildarflokkarnir tveir fengu samtals um 20% atkvæða í síðustu þingkosningum. Svo lengi sem inngöngubeiðnin er ekki afturkölluð hefur Ísland stöðu umsóknarríkis og í því felst gagnvart umheiminum yfirlýsing Íslands um að landið vilji ganga í Evrópusambandið. Því verður að linna án frekari tafa. Ef þingmenn stjórnarflokkanna geta ekki drifið það verk af, eru þeir til lítils nýtir.