Þriðjudagur 15. október 2013

Vefþjóðviljinn 288. tbl. 17. árg.

Trúin á „eftirlitið“ er æði lífseig enda notalegt að telja sér trú um að maður geti flotið sofandi á meðan aðrir standi vaktina.

Egill Helgason starfsmaður á Ríkisútvarpinu skrifaði til að mynda á Eyjuna nýlega:

Betra fjármálaeftirlit og eftirlit með því hvert íslenska hagkerfið stefndi (Þjóðhagsstofnun?) hefði hugsanlega getað sparað íslensku þjóðinni ótalda milljarða í hruninu. Eftirlit getur nefnilega margborgað sig.

Vilja menn þjóðfélag í alvöru þar sem eftirlit er svo strangt að bankar eða önnur mikilvæg fyrirtæki geti ekki farið sér að voða? Taprekstur og gjaldþrot fyrirtækja eru þáttur í frjálsum markaði. Tap er skilaboð til eigenda og stjórnenda fyrirtækja um að breyta um stefnu eða snúa sér að einhverju öðru.

Þrátt fyrir alla upplýsingatæknina er það jafnframt óskhyggja að embættismenn geti fremur greint hættumerkin en stjórnendur fyrirtækjanna. Eftirlitsstofnanir eru yfirleitt að skoða söguna, rýna í orðinn hlut. Ef menn myndu hins vegar viðurkenna að skriffinnum í ríkisstofnunum væri helst treystandi til að leiða fyrirtæki og stýra framleiðslu þeirra væru menn hreinlega að biðja um áætlunarbúskap. Var ekki búið að prófa hann?

Og úr því minnst er á Þjóðhagsstofnun má einnig rifja upp til gamans söguna af niðurlagningu hennar en sá atburður hefur orðið tilefni til margvíslegra samsæriskenninga.