Vefþjóðviljinn 17. tbl. 17. árg.
Oft er kastað fram í umræðuna dæmum þar sem bæði skortir ýmsar forsendur og einnig samanburð við aðra kosti.
Í Pressunni í vikunni var birt frásögnin „Lífskjaramunurinn“ af því hve snjall leikur það hafi verið að flytja frá Íslandi til Bretlands árið 1995. Og hvers vegna á það að hafa verið svo snjallt? Jú sagan segir að hjónin sem fluttu utan árið 1995 eigi nú húsnæði að verðmæti 70 milljónir króna en skuldi 29 milljónir. Eign þeirra í húsinu sé þannig 41 milljón króna. Til frekari sönnunar á því hve þetta var góður leikur er birt þessi ljómandi fína mynd af húsinu.
Þetta er nú eitthvað annað en á Íslandi þar sem lánin hækka og hækka. Eða eins og segir í frásögn Pressunnar: „alveg sama virðist hve mikið við borgum og borgum um hver mánaðarmót; höfuðstóll lánsins gerir ekkert annað en að hækka vegna verðtryggingar og verðbólgu.“
Þetta vakti forvitni Vefþjóðviljans á örlögum fasteignakaupenda á Íslandi. Hvernig hefur þeim reitt af sem keyptu hús árið 1995?
Þeir sem keyptu sér hús á Íslandi árið 1995, sem nú er metið á 70 milljónir króna, gátu tekið til þess verðtryggð lán til 25 ára með 5,1% vöxtum. Ef þeir hefðu tekið slíkt lán fyrir allri fjárhæðinni árið 1995 væru eftirstöðvar lánsins nú 29 milljónir króna. Þrátt fyrir að leggja ekkert eigið fé fram í upphafi væri eign þeirra í húsinu því 41 milljón króna.
Rétt eins og hjá hjónunum sem fluttu til Bretlands og þykja hafa gert það gott.