Föstudagur 18. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 18. tbl. 17. árg.

Arnar Guðmundsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og frambjóðandi Samfylkingarinnar telur að flokkar eigi að skila öllum styrkjum frá fyrirtækjum sem tengd voru ákveðnum mönnum árið 2006. Hann hefur verk að vinna í Samfylkingunni þar sem tugum milljóna króna er óskilað.
Arnar Guðmundsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og frambjóðandi Samfylkingarinnar telur að flokkar eigi að skila öllum styrkjum frá fyrirtækjum sem tengd voru ákveðnum mönnum árið 2006. Hann hefur verk að vinna í Samfylkingunni þar sem tugum milljóna króna er óskilað.

Upprifjun á styrkjamálum Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2006 verður meðal helstu áherslumála vinstri flokkanna og fjölmiðla þeirra næstu þrjá mánuði, rétt eins og fyrir kosningarnar vorið 2009.

Við því er svo sem ekkert að segja annað en Sjálfstæðisflokkurinn vinnur nú að því að endurgreiða þessa styrki og hefur þegar endurgreitt 18 milljónir. Öllu lengra geta menn ekki gengið í að viðurkenna að það hafi verið rangt að þiggja styrkina.

En þeir sem hafa áhuga á styrkjamálum stjórnmálaflokkanna frá árinu 2006 geta vart einskorðað hann við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin þáði til að mynda 23,5 milljónir króna frá FL Goup, Baugi, Dagsbrún og Íslandsbanka árið 2006. 15 milljónir frá Kaupþingi og Exista. Og 8,5 milljónir frá Landsbankanum. Ekki hefur hvarflað að Samfylkingarmönnum að skila þessum tugmilljónastyrkjum eins og Sjálfstæðisflokkurinn er að gera.

Arnar Guðmundsson aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík spyr að því á Facebook í morgun hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að heyja kosningabaráttu sína 2013 með milljónir frá félögum sem tengd voru Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfsfeðgum „á reikningum sínum.“

Arnar virðist telja það hneyksli að flokkar hafi ekki skilað öllum styrkjum frá slíkum fyrirtækjum. Hann hefur verk að vinna í Samfylkingunni.

Arnar hlýtur jafnframt að grennslast fyrir um hvort formannsefnin í Samfylkingunni hafi skilað rausnarlegu styrkjunum sem þeir þáðu í prófkjöri árið 2006 frá Landsbankanum og Baugsfélögum. Arnar hlýtur að skila auðu í formannskjörinu ef Guðbjartur og Árni Páll eru enn með slíkt fé „á reikningum sínum.“