Laugardagur 11. september 2010

254. tbl. 14. árg.

U na Sighvatsdóttir sagði frá ferðum sínum um byggðir Vestur-Íslendinga í stuttum pistli í Morgunblaðinu 1. september. Þar vakti hún athygli á því sögu vesturfaranna eru engin skil gerð í skólum landsins. Það er auðvitað furðulegt að það teljist ekki til tíðinda í menntakerfinu að fjórðungur þjóðarinnar hafi flutt af landi brott á hálfum mannsaldri. Og það er ekki svo langt síðan. Enn er fólk á lífi frá tímum vesturferðanna.

En því miður hefur það lengi loðað við menntakerfið að einblína austur um haf. Menn lærðu allt um árnar í Evrópu en ekkert um sjálfstæðisbaráttuna í Bandaríkjunum sem var þó mikilvægasti farvegur lýðræðis og mannréttinda á Vesturlöndum.

Flestir virðast hafa farið í gegnum skólakerfið án þess að minnst sé á Ameríku nema til að geta þess að þar hafi verið þrælahald, kreppan mikla og kjarnorkusprengju hafi verið varpað úr bandarískri flugvél.

Úr þessu hefur hins vegar verið bætt hvað vesturferðirnar varðar með útgáfu margra bóka um þær á síðustu árum. Ýmsar þeirra, eins og og bækur Böðvars Guðmundssonar, hafa notið mikilla vinsælda svo víst er að áhuginn er fyrir hendi.