Föstudagur 10. september 2010

253. tbl. 14. árg.

Á það var minnst hér á dögunum að sýsla nokkur í Kalíforníu, kennd við appelsínur, hefði lýst sig gjaldþrota árið 1994. Velti Vefþjóðviljinn því fyrir sér hvernig rekstur íslenskra sveitarfélaga undanfarin misseri kæmi út í samanburði við Orange sýslu. Tapið sem hrakti sýsluna í þrot árið 1994 var um 50 þúsund krónur á hvern íbúa.

Í Árborg hefur til að mynda verið glatt á hjalla undanfarin ár. Tapið á síðasta ári var um 80 þúsund krónur á hvern íbúa og árið þar á undan 160 þúsund krónur. Það kom þó ekki í veg fyrir að hinn 12. mars síðastliðinn, skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar, ákvað bæjarstjórnin að hespa af stúkubyggingu fyrir 705 áhorfendur við fótboltavöll bæjarins. Þetta var að sögn gert að kröfu KSÍ. Hér liggur við að Vefþjóðviljinn setji upphrópunarmerki.

Stjórnendur Orange sýslu viðurkenndu vandann sem fylgdi 50 þúsund króna tapi á hvern haus og lýstu sýsluna gjaldþrota. Stjórnendur Árborgar, sem tapa margfalt meira fé per íbúa, hefja hins vegar byggingu stúku svo 705 manns geti hlammað sér niður 11 sinnum á ári. Og þetta var bara að gerast núna í vor, á nýja fína Íslandi.

Væntanlega mun einhver segja að þetta sé eins og að bera saman appelsínur og strípur, staðan eignamegin á Selfossi sé mjög sterk, til dæmis sé þar ný stúka sem þurfi ekki að byggja næst þegar Selfoss kemst upp í efstu deild, nema auðvitað KSÍ geri kröfu um stúku fyrir 706 áhorfendur.