Vefþjóðviljinn 34. tbl. 20. árg.
Vinstrimenn hafa margir mikinn áhuga á því að beita hinu opinbera til að „bæta stöðu leigjenda“. Ein skýring þess er sú að það er ríkt í vinstrimönnum að vilja frekar að fólk leigi, frekar en að það eignist eigið húsnæði. Sá sem eignast eigið húsnæði gæti jafnvel farið að styðja einkaeignarrétt frekar en að allt sé í „sameiginlegri eigu“, undir stjórn ríkisins.
Vinstrimenn vilja hafa sem fæst í einkaeigu. Hið opinbera á að eiga hlutina og menn eiga bara að leita þangað. Stofna leigufélög, fá bætur frá ríkinu sem ganga svo upp í leiguna. Ekki eignast íbúðina sína heldur leigja hana. Sömu hugsun hafa vinstrimennirnir á öðrum sviðum. Einkabankar finnst þeim vera glæpafyrirtæki. Það eiga að vera „samfélagsbankar“. Ríkið eitt má selja áfengi í smásölu því annars verða allir áfengissjúklingar. Og þannig má lengi telja.
Þetta með bæturnar er afar mikilvægt frá sjónarhóli vinstrimannsins. Hann vill venja sem flesta við bætur, gera sem flesta háða bótum. Láta sem flesta vera á þeirri skoðun að hið opinbera verði að sjá um sem mest fyrir hann. – Hvað halda menn að slíkur maður kjósi svo í kosningum?
Í þessum anda er stefna vinstrimann í húsnæðismálum. Leigiði, en eignist ekki húsnæði.
En hverjum ætli „stuðningur við leigjendur“ hjálpi nú í raun?
Leigusali heimtar 100.000 á mánuði fyrir íbúðarkytru sem hann leigir út. Hann finnur leigjanda sem hefur einmitt efni á því, en alls ekki á hærri leigu. Svo kemur einhver leigjenda-málaráðherra og ákveður að ríkið styrki leigendur um 20.000 krónur á mánuði.
Hvað halda menn að gerist næst? Í hvaða vasa lenda 20.000 krónurnar?