Þriðjudagur 2. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 33. tbl. 20. árg.

Spíralykt af löggjöfinni. Tveir stjórnmálamenn sem gengið hafa erinda alkóhólframleiðenda.
Spíralykt af löggjöfinni. Tveir stjórnmálamenn sem gengið hafa erinda alkóhólframleiðenda.

Þótt Donald Trump hafi spilað á fjölmiðla mánuðum saman dugði það honum ekki til sigurs í forvali repúblikana í Iowa í nótt, þvert á flestar skoðanakannanir.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz frá Texas hafði betur og Marco Rubio kollegi hans frá Flórída náði einnig góðum árangri.

Það má segja ýmislegt um Ted Cruz, ekki síst um afstöðu hans til ýmissa einkamála fólks. En hann var hins vegar eini frambjóðandinn í gær, fyrir utan frjálshyggjumanninn Rand Paul, sem hafði lýst yfir andstöðu við skylduna til að blanda etanóli í bensín. Hvergi er framleitt meira af etanóli en í Iowa.

Þetta er í fyrsta sinn sem frambjóðandi í forvali í Iowa hefur sigur með þessa afstöðu. Donald Trump hafði ásamt ríkisstjóranum í Iowa og samtökum etanólframleiðenda gert harða hríð að Cruz vegna andstöðu hans við þessar reglur sem skylda bíleigendur til að greiða hærra verð fyrir lélegra eldsneyti sem skaðar auk þess umhverfið og hefur áhrif á matarverð.

Reglur af þessu tagi voru leiddar í lög hér á landi á síðasta kjörtímabili þegar frumvarp samið af metanólframleiðanda og lagt fram af Steingrími J. Sigfússyni var samþykkt á alþingi án þess að þingmönnum væri kynnt að hagsmunaaðili hefði samið frumvarpið.

Þau ólög standa enn þótt þingmannafrumvarp um að aflétta þeim hafi verið lagt fram.