Mánudagur 1. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 32. tbl. 20. árg.

SALEK heimtar meira í sjóðina sína.
SALEK heimtar meira í sjóðina sína.

Samstæðustu hagsmunasamtök landsins, „aðilar vinnumarkaðarins“, undirrituðu kjarasamning á dögunum, „SALEK“ samkomulagið.

Þegar hlutir fá undarlega skammstöfun þá ættu menn auðvitað að vera á varðbergi. En fleira er um samkomulagið að segja.

Þar er gert ráð fyrir stórauknu framlagi til lífeyrisgreiðslna launafólks. Fyrirtækin telja sig greinilega aflögufær um talsverðar fjárhæðir en hafa samið við verkalýðsforstjórana um að stór hluti þessara peninga renni ekki til launafólksins sjálfs heldur í lífeyrissjóðina.

Auðvitað er gert ráð fyrir því að í fyllingu tímans njóti þeir launþegar, sem lifa nógu lengi, ávöxtunar þess sem lagt hefur verið í lífeyrissjóðina. Það er ekki eins og lífeyrissjóðsgreiðslur séu nauðsynlega tapað fé.

En hvers vegna á að auka greiðslurnar í lífeyrissjóðina í staðinn fyrir að hækka einfaldlega það sem hver og einn fær í launaumslagið? Ætli það geti nokkuð tengst því að forstjórar verkalýðsfélaganna og atvinnurekendafélaganna raða mönnum í stjórnir lífeyrissjóðina og sitja þar og kaupa og selja hlutabréf af mikilli visku? Svo þarf að velja stjórnarmenn í félögin sem lífeyrissjóðirnir eru búnir að kaupa í.

Hvernig væri nú að treysta hinum almenna launamanni til að ráðstafa laununum sínum, velja sparnaðarleiðir og svo framvegis?

Er ekki aukið frelsi í lífeyrismálum brýnna en að taka sífellt stærri hluta launanna og leggja þá inn til lífeyrissjóðanna?