Þ jóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-ánauðina kom til tals á Alþingi í gær. Flokkslínudansarinn kunni, Álfheiður Ingadóttir var hin reiðasta yfir slíkri tillögu og sagði að í alþingiskosningunum í apríl hefði meðal annars verið kosið um Icesave.
Gott og vel, Álfheiður. Lítil spurning, sem þingfréttaritarar munu eflaust hafa hugmyndaflug til að spyrja þig einhvern tíma, þó ekki hafi það þó verið í gær: Hvort varst þú kjörin á þing af stuðningsmönnum eða andstæðingum Icesave-„samkomulagsins“? Þeir sem vildu ganga að afarkostum Breta og Hollendinga, og beygja sig einnig fyrir alþjóðagaldeyrissjóðnum – já og sækja um aðild að Evrópusambandinu – kusu þeir Vinstrihreyfinguna grænt framboð í síðustu kosningum?
Álfheiður er á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-ánauðina, af því að alþingiskosningarnar hafi verið kosningar um Icesave. Ögmundur Jónasson flokksbróðir hennar, sem er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, ætlar hins vegar að styðja inngöngu í Evrópusambandið á alþingi, „í nafni lýðræðisins“, til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna, sem hann er á móti.
Vinstrigrænir hafa einfaldlega keypt ráðherrastóla sína með því að selja allt sem kratar vildu kaupa. Forystumenn vinstrigrænna, sem í stjórnarandstöðu stærðu sig af málefnafestu og andúð á hugsjónasölumönnum, hlaupa nú úr einu vígi í annað, í leit að nýjum rökum gegn sinni gömlu sannfæringu, til að geta borgað krötum umsamið kaupverð nokkurra stóla.
Það er glæsilegt.