S jálfur Pierre Mathijsen prófessor við sjálfan háskólann í Brussel og fyrrverandi ráðuneytisstjóri hjá Evrópusambandinu heiðrar blaðalesendur á Íslandi með grein í Morgunblaðinu í dag. Þar færir hann rök fyrir því að „samkvæmt Evrópurétti [sé] það rétt, jafnvel nauðsynlegt“ að íslenskir skattgreiðendur hlaupi undir bagga með þeim tryggingasjóði innistæðueigenda sem settur var upp hér á landi að tilskipan Evrópusambandsins en getur nú ekki staðið við nema lítið brot af því skuldbindingum sem tryggingatakar – bankar og innistæðueigendur – efndu til.
Rök Mathijsens eru í stuttu máli þessi: -„Ef innistæðutryggingin stendur ekki undir skuldbindingum sínum, hefur ríkið þar sem bankastofnun er staðsett augljóslega brugðist skyldu sinni og er fjárhagslega ábyrgt gagnvart sérhverjum innistæðueiganda.“
Já hann er þægilegur þessi Evrópuréttur. Í hvert sinn sem eitthvað bregst er reikningur fyrir tjóninu sendur skattgreiðendum. Barn lærir ekki að lesa í skóla sem hið opinbera hefur sett upp í því skyni. Menn verða sjúkir þrátt fyrir heilsugæsluna. Slyppir og snauðir þrátt fyrir velferðarkerfi. Lenda á hrakhólum þrátt fyrir íbúðalánasjóð. Og ríkið þar með brugðist skyldu sinni og orðið fjárhagslega ábyrgt.
Staða tryggingasjóðs innistæðueigenda á Íslandi og geta hans til að mæta áföllum í íslenska bankakerfinu var ekkert leyndarmál eða laumuspil íslenskra yfirvalda. Þvert á móti. Stöðu hans gátu allir kynnt sér. Breska fjármálaeftirlitið hvatti sparifjáreigendur jafnvel opinberlega til að kynna sér tryggingakerfin að baki innlánsreikningum. Til hvers var sú hvatning ef allt tryggt í bak og fyrir af ríkinu?
Og til hvers eru sérstök tryggingakerfi ef ekki til að takmarka mögulegar tryggingabætur við getu kerfisins? Það er engin þörf á sérstöku tryggingakerfi ef ótakmörkuð ábyrgð skattgreiðenda fylgir.
Eða ætla evrókratarnir að halda því fram að ef allir jarðarbúar hefðu stofnað netreikning með 20 þúsund evrum í Landsbankanum í Hollandi sætu íslenskir skattgreiðendur uppi með ábyrgð á því öllu saman?