Þriðjudagur 10. júní 2008

162. tbl. 12. árg.

Á dögunum gripu franskir sjómenn til aðgerða. Ekki þessara hefðbundnu, að sigla um höfin blá, heldur að loka höfnum fyrir allri umferð. Þeir vildu vekja athygli á aðstæðum sínum og krefja stjórnvöld um aðstoð. Meginkröfurnar voru lægri eldsneytisgjöld og fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera.

Aðgerðirnar vöktu svo mikla athygli að þekktur Frakki fór í viðtal við alla helstu fjölmiðla, sagðist vilja gera allt sem í sínu valdi stæði til að hjálpa sjómönnunum, en hann réði því miður engu um málið. Hann myndi hins vegar leita til Evrópusambandsins og biðja það um leyfi til að ganga að kröfum sjómannanna.

Þessi vesalings maður, sem hefur engin völd til að hjálpa frönskum sjómönnum, heitir Nicolas Sarkozy og starfar sem fyrirsæta og forseti Frakklands. Völdin til að verða við kröfum franskra sjómanna eru auðvitað ekki hjá þeim manni sem Frakkar hafa valið sem forseta, heldur hjá embættismönnum sem franskir kjósendur hafa ekkert um að segja. En utan Evrópusambandsins sitja fyndnir menn og spyrja þá landa sína sem ekki vilja gefa fullveldi lands síns upp á bátinn: Frakkland, Danmörk, Holland og slík ríki eru í Evrópusambandinu, eru þau kannski ekki fullvalda, ho ho ho?

Hvað sem segja má um kröfur frönsku sjómannanna, þá er ekki glæsilegt fyrir nokkurt land að það sé ekki á þess sjálfs valdi heldur annarra hvort við þeim er orðið. En það er einmitt staðan sem ýmsir vilja koma Íslandi í.

Aðild að Evrópusambandinu þýðir stórfellda skerðingu á fullveldi Íslands. Endanlegt vald um allskyns íslensk málefni yrði fært frá því fólki sem Íslendingar hafa kosið – og geta kosið af sér ef þeir vilja – og yfir til manna sem enginn Íslendingur hefur kosið og myndu seint fá sér af höndum rekið. Það kemur ekki til greina undir neinum kringumstæðum að stjórnarskrá landsins verði breytt, til þess að gera slíkt mögulegt.