Mánudagur 9. júní 2008

161. tbl. 12. árg.

J ón Daníelsson hagfræðingur við London School of Economics hélt erindi um lausafjárkreppuna svonefndu í Háskóla Íslands á föstudaginn. Þar var margt um manninn enda Jón skemmtilegur fyrirlesari með afgerandi skoðanir. Meðal þess sem Jón gagnrýndi voru hugmyndir um stórkostlega lántöku ríkissjóðs sem fjármálaráðherra hefur fengið heimild Alþingis til. Jón sagði þessa lántöku jafngilda því að Íslendingar settu upp skilti með áletruninni „ráðist á okkur“. Lántaka af þessu tagi bæri vott um lítið sjálfsálit og sendi þau skilaboð út á fjármálamarkaði að íslenskt efnahagslíf væri í nauðvörn.

Rauði þráðurinn í erindi Jóns var að stjórnvöld ættu ekki að streitast á móti gengisfalli gjaldmiðils – líkt og Seðlabanki Íslands hefur gert með vaxtahækkunum – því skellurinn verði þá bara verri þegar hann kemur. Það sé einfaldlega betra að láta hina óhjákvæmilegu þróun eiga sér stað. Fundarmenn lýstu áhyggjum af afleiðingum slíkrar stefnu fyrir íslensk fyrirtæki og heimili með verðtryggðar skuldbindingar. Gylfi Zoëga fundarstjóri velti því hins vegar upp hvort snöggur samdráttur myndi ekki einmitt vinna gegn verðbólgu. Þegar spenna minnkar á vinnumarkaði og eignir á borð við húsnæði taka að falla í verði mun það auðvitað vega að einhverju leyti á móti hækkunum á innflutningi.

Jón fjallaði einnig talsvert um hugsanlega upptöku evrunnar á Íslandi. Hann telur óraunhæft að evran gæti leyst íslensku krónuna af hólmi innan áratugar, hvort sem Íslendingar gengju í Evrópusambandið eða tækju evruna upp einhliða. Hinir tæknilegu þættir málsins gerðu það einfaldlega mjög seinlegt að taka evruna upp. Það væri ef til vill ágætt að hafa evruna nú um stundir en tal um upptöku evrunnar væri ekkert innlegg í umræðuna um þann vanda sem steðjaði að.