Helgarsprokið 8. júní 2008

160. tbl. 12. árg.

B orgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins stigu í gær mikilvægt skref í þá átt að ná vopnum sínum á ný eftir nokkurra mánaða erfiðleikatímabil þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörinn oddviti þeirra í stað Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Það var Vilhjálmur sjálfur sem óskaði lausnar frá oddvitastarfinu og tillaga hans um að Hanna Birna tæki við var samþykkt einróma af hinum borgarfulltrúunum.

Hvað sem mönnum finnst um Vilhjálm verður ekki annað sagt en að hann hafi spilað nokkuð vel úr þeirri erfiðu stöðu sem hann sjálfur og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík komust í þegar Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sleit meirihlutasamstarfi við hann í október síðastliðinn. Eftir 100 daga sundurlausa vinstri stjórn sem gat ekki einu sinni komið sér saman um málefnasamning, mynduðu sjálfstæðismenn nýjan meirihluta með Ólafi F. Magnússyni. Með ákvörðun sinni í gær fórnaði Vilhjálmur eigin hagsmunum og lék þann leik sem líklegastur er til árangurs fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ýmsir fjölmiðlar munu vafalaust halda áfram að gera meirihlutanum lífið leitt með því að blása upp öll möguleg og ómöguleg mál í þjónkun sinni við stjórnarandstöðuna í borgarstjórn. En því verður ekki neitað að með tíðindum gærdagsins hefur ákveðinni óvissu verið eytt í herbúðum meirihlutans.

„Guðmundur Þóroddsson, fráfarandi forstjóri Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest, leysir hins vegar frá skjóðunni í viðtölum í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær. Þar koma fram þær áhugaverðu upplýsingar að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri hafi sagt rétt frá varðandi það að hafa ekki séð nafnalista á stjórnar- og eigendafundi Orkuveitunnar yfir þá sem áttu að fá að kaupa hlutafé í REI. Vilhjálmur hefur oft haldið því fram að hann hafi ekki séð slíkan lista en margoft verið rengdur um það í fjölmiðlum.“

Þegar R-listinn náði völdum í Reykjavík 1994 var útsvar í lágmarki, þegar hann lét af völdum árið 2006 hafði það verið hækkað í lögbundið hámark, 13,03%. Er ekki kominn tími til að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beiti sér fyrir skattalækkunum með afgerandi hætti? Fyrsta verk nýs meirihluta í janúar var að afturkalla að stærstum hluta þá hækkun fasteignaskatts sem 100 daga meirihlutinn lét verða eitt sitt fyrsta verk að samþykkja. Má Vefþjóðviljinn leggja til að sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon haldi áfram á braut skattalækkana og lækki fasteignagjöld og útsvar svo um munar. Er ekki rétta tækifærið fyrir meirihlutann að lækka nú útsvarið og sýna Reykvíkingum að þeim sé treystandi fyrir eigin fé?

Þann óróleika sem ríkt hefur í borgarstjórn í vetur má rekja til REI málsins í október og meirihlutaslita í kjölfarið. Með því að slíta samstarfi við sjálfstæðismenn en mynda nýjan meirihluta með vinstri mönnum, tryggði Björn Ingi að öll gagnrýni hinna síðarnefndu á störf hans í REI málinu, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Á meðan Björn Ingi var í samstarfi með sjálfstæðismönnum, lá hann undir hörðum ásökunum frá Samfylkingu og Vinstri grænum sem kröfðust þess að þáttur hans í REI-málinu yrði rannsakaður ofan í kjölinn. Meðal annars lék grunur á að lög hefðu verið brotin þegar vinur Björns Inga og kosningastjóri var á lista yfir forkaupsrétt að hlutafé í REI eftir nokkurra daga starf. Eftir að Björn Ingi hafði slitið meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn, breyttist málflutningurinn á þann veg að mikilvægt væri að róa umræðuna og gera sem minnst. Í skýrslu stýrihóps Svandísar Svavarsdóttur um REI-málið var þess síðan vandlega gætt að gera hvergi upp sakirnar við Björn Inga. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar Svandísar og Dags B. Eggertssonar um að í rannsókn stýrihópsins þyrfti að velta við hverjum steini, var ýmsum spurningum ekki svarað í skýrslunni.

Guðmundur Þóroddsson, fráfarandi forstjóri Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest, leysir hins vegar frá skjóðunni í viðtölum í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær. Þar koma fram þær áhugaverðu upplýsingar að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri hafi sagt rétt frá varðandi það að hafa ekki séð nafnalista á stjórnar- og eigendafundi Orkuveitunnar yfir þá sem áttu að fá að kaupa hlutafé í REI. Vilhjálmur hefur oft haldið því fram að hann hafi ekki séð slíkan lista en margoft verið rengdur um það í fjölmiðlum. Það er óneitanlega fréttnæmt að nú skuli fráfarandi forstjóri REI koma fram og taka undir orð Vilhjálms að þessu leyti.

Gerð lista yfir forkaupsréttarhafa á hlutafé í REI voru auðvitað umdeildasti hluti málsins. Það var einmitt í þeirri vinnu sem það kom hvað skýrast fram að Guðmundur Þóroddsson taldi sig geta farið sínu fram eins og um hans einkafyrirtæki væri að ræða án vitundar eða samþykkis fulltrúa eigenda fyrirtækisins, borgarfulltrúa í Reykjavík. Guðmundur vann sjálfur að forkaupsréttarsamningum sem síðan var breytt eftir að andstaða við þá kom í ljós. Hann var beggja megin borðs í því máli og var að ,,semja“ um flutning eigna frá Orkuveitunni til REI í sama mund og hann var að véla um eigin eignarhlut í REI. Átti hann sjálfur að fá að kaupa 78 milljóna króna hlut í sameinuðu fyrirtæki REI og Geysir Green Energy á genginu 1,27. Á þessum tíma var því spáð að gengið ætti eftir að tvöfaldast, jafnvel margfaldast á nokkrum mánuðum. Þessum samningi og fleirum átti að ganga frá án vitundar almennra borgarfulltrúa og að því er nú kemur fram, án vitundar sjálfs borgarstjóra.

Í hinni miklu fjölmiðlaumfjöllun um REI-málið hafa ýmsir fjölmiðlar verið iðnir að gera sem mest úr hlut borgarstjóra og kalla eftir gagnrýni á störf hans sem í sjálfu sér er ekki óeðlilegt. Nú bregður hins vegar svo við að aðrir fjölmiðlar en Fréttablaðið virðast hafa lítinn áhuga á að fjalla um þessar nýframkomnu upplýsingar í málinu. Ef Guðmundur hefði nú sagt að Vilhjálmur hefði séð umræddan lista og þar með lagt blessun sína yfir hann, hefði vafalaust ekki staðið á mikilli umfjöllun annarra fjölmiðla um þær upplýsingar.

Í viðtölunum við Guðmund kemur hann hreint fram með þá skoðun sína að Orkuveita Reykjavíkur eigi ekki að vera í eigu Reykvíkinga. ,,Ég hef alltaf talið að það ætti að einkavæða Orkuveituna,“ segir Guðmundur. Þessi orð falla aðeins örfáum dögum eftir að hluti starfsmanna Orkuveitunnar lýsti á fundi yfir fullum stuðningi við Guðmund Þóroddsson og frábað sér ,,pólitísk afskipti“ af fyrirtækinu. Eru starfsmennirnir að óska eftir því að fyrirtækið verði einkavætt og er þá ekki sjálfsagt að fjalla um þá ósk í borgarstjórn?