Þriðjudagur 13. maí 2008

134. tbl. 12. árg.

Þ að er hárrétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að fréttastofa Stöðvar 2 var í pólitík en ekki fréttamennsku með sífelldum athugasemdum sínum um að ekki væri komið fram frumvarp til nýrra laga um eftirlaun. Venjuleg fréttastofa hefur það hlutverk með höndum að segja fréttir af því sem hefur gerst og útskýra það. Þá má einnig hugsa sér að það geti verið fréttnæmt að eitthvað hafi ekki gerst, en þá einkum ef svo vill til að almennt hafi verið gert ráð fyrir að það gerðist. Síendurteknar „fréttir“ stöðvarinnar um að nú væri svo og svo mikið til þingloka en enn væri tiltekið frumvarp ekki komið fram, var hins vegar ekki fréttamennska heldur tilraun til að hafa áhrif á atburðarás.

Það var ekkert að því að segja frá því að stjórnmálamenn hefðu boðað eitt og annað fyrir kosningar sem síðan hefði ekkert orðið úr. En þegar menn velja eitt og aðeins eitt mál af öllu því sem talað er um fyrir kosningar, og endurtaka það sama mál dag eftir dag eftir dag, þá eru menn að gera eitthvað annað en að segja fréttir. Og ættu þá hugsanlega að kalla sig eitthvað annað en fréttastofu rétt á meðan. Þetta er alveg óháð því hvað mönnum finnst svo um málið sem fréttastofan þrýsti svo mjög á ráðherrann að setja fram. Fréttamenn eiga einfaldlega að reyna að forðast að hafa áhrif á atburðarás. Þeir eiga að segja frá því sem gerist og skýra það fyrir fólki. En reyna að halda sjálfum sér til hlés sem þeir geta.

En þeir sem halda að þessi framganga fréttastofu Stöðvar 2 sé einsdæmi, rétt eins og það var einsdæmi að fyrrverandi fréttamaður stöðvarinnar velti því fyrir sér um daginn að fá mann til að kasta eggi fyrir myndavélarnar, ættu að líta í fjölmiðla-bækur Ólafs Teits Guðnasonar. Þær eru fleytifullar af dæmum um vafasöm vinnubrögð fjölmiðlamanna, sem hinn almenni maður þarf að treysta á um upplýsingar. Fjölmiðlar 2004, Fjölmiðlar 2005 og Fjölmiðlar 2006 fást í Bóksölu Andríkis og kosta þar aðeins 1.890 krónur hver og ein, eða allar saman í pakka á 4.900 krónur, og heimsending innifalin. Einstök ritröð sem er ómissandi lesning fyrir alla þá sem þurfa að treysta íslenskum fjölmiðlum.

Ö nnur vinstrikona hafði rétt fyrir sér í síðustu viku. Í viðtali við blaðið með þjála nafninu, 24 stundir, var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir varaþingmaður vinstrigrænna spurð um áhugamál hinna talandi stétta, Evrópusambandið. Hún svaraði: „Ég þekki það af eigin raun frá Brussel að Evrópusambandið er skrifræðisbákn sem er keyrt áfram af ólýðræðislegu embættismannakerfi“. Þetta er hárrétt hjá Guðfríði Lilju og Vefþjóðviljinn fagnar því ef yngri kynslóð vinstrigrænna hefur sömu skynsamlegu afstöðuna til Evrópumála og margir hinna eldri. Það er að mati Vefþjóðviljans fullkomin fjarstæða að Íslendingar eigi að afhenda ókosnum kontóristum í Brussel fullveldi Íslands að meira eða minna leyti.